Fara í efni

Fjölmenni fagnaði nýrri Norrænu

Mikið var um dýrðir á Seyðisfirði sl. þriðjudag þegar ný Norræna lagðist þar að bryggju í fyrsta sinn og var fjöldi manns mættur til að fagna komu ferjunnar. Um nokkurs konar reynsluferð var að ræða en reglulegar áætlunarferðir hingað til lands hefjast 15. maí nk.

Norræna var fljótari í ferðum frá Færeyjum en ráð var fyrir gert og reyndist skipið í alla staði vel. Um algera byltingu er að ræða því eins og fram hefur komið er nýja Norræna meira en tvöfalt stærri en sú gamla. Skipið er 165 metrar á lengd, ber 1.500 farþega og allt að 800 bíla. Vegna stærðar skipsins þurfti að ráðast í verulegar hafnarbætur á þeim stöðum sem það siglir til og á Seyðisfirði er búið að búa til nýja höfn fyrir um 600 milljónir króna. Nýja ferjulægið er m.a. með 15 metra háum turni með landgangi svo farþegar ganga um borð innan dyra. Íslenska ríkið greiðir 80%  byggingarkostnaðar við nýju hafnaraðstöðuna og Hafnarsjóður Seyðisfjarðar 20%.

Á Seyðisfirði og í nærliggjandi byggðalögum ríkir eftirvænting vegna tilkomu nýrrar Norrænu. Stóraukinn áhugi er á að ferðast með skipinu um Atlantshafið og er gert ráð fyrir að um 25.000 farþegar komi með því til Seyðisfjarðar á þessu ár. Er það um 50% aukning frá síðasta ári.

 

Glæsileg aðstaða um borð
Öll aðstaða um borð er sérlega glæsileg. Í skipinu eru sjö tegundir íbúða. Þar er að finna íþróttaaðstöðu og sundlaug, veglega veitingasali, bari og dansstað, fundaaðstöðu og verslanir af ýmsu tagi, svo eitthvað sé nefnt. Þá er einnig hugsað fyrir afþreyingu fyrir börnin með leiktækjasölum og fleiru. Því ætti öllum að geta liðið vel um borð í nýju Norrænu.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við komu skipsins og hægt er að smella á þær til að sjá stærri útgáfu.

Skoða myndir