Fara í efni

Fjölgun gistinátta í október

Gisting okt09
Gisting okt09

Gistinóttum á hótelum í október fjölgar um rúm 2% milli ára samkvæmt gistinátttalningu Hagstofunnar. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum varð fækkun á milli ára.

Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 106.300 en voru 104.000 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi úr 11.200 í 12.700 eða um tæp 13%. Á höfuðborgarsvæðinu fóru gistinætur úr 77.400 í 81.300 sem er aukning um rúm 5%  milli ára.

Gistinóttum á Austurlandi fækkaði um 28% miðað við október 2008, úr 2.900 í 2.000. Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum úr 5.100 í 3.800 eða um 25%. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fækkaði gistinóttum úr 7.300 í 6.400 eða um tæp 13%. Gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði um 3% milli ára en gistinætur Íslendinga á hótelum í október voru svipaðar milli ára.

Svipaður fjöldi fyrstu tíu mánuði ársins
Fjöldi gistinátta fyrstu tíu mánuði ársins var 1.206.000 en þær voru 1.203.500 á sama tímabili árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Norðurlandi um 7% og á Suðurlandi um 6%. Á öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum eða eru svipaðar milli ára. Mest fækkaði gistinóttum á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða eða um 12%. Fyrstu tíu mánuði ársins fækkaði gistinóttum Íslendinga um 11% á meðan gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði um rúm 3% miðað við sama tímabil árið 2008.