Fara í efni

Fjölgun ferðamanna í febrúar

Erlendum ferðamönnum hingað til lands fjölgaði um tæp 15% í febrúarmánuði síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra, samkvæmt talningum Ferðamálaráðs í Leifsstöð. Segja má að árið fari vel af stað því aukningin í janúar nam rúmum 29%.

Aukning er frá öllum markaðssvæðum í febrúar. Norðurlöndin skila góðri aukningu, sérstaklega Danmörk og Noregur. Bandaríkin eru einnig á góðum skriði, sem og ríki Mið-Evrópu, svo sem Holland, Þýskaland, Spánn og Ítalía. Bretar voru sem fyrr fjölmennasti hópurinn og þaðan er einnig aukning í febrúar.

Megum hvergi slaka á
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segir þessar tölur ánægjulegan vitnisburð um þann árangur sem náðst hafi í markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands allt árið. Þar komi m.a. til öflugt samstarf hins opinbera og fyrirtækja í ferðaþjónustu í gegnum aukna fjármuni sem stjórnvöld hafi ákveðið að verja til þessa málaflokks. Hins vegar verði að gæta þess að sofna ekki á verðinum heldur halda áfram að sækja fram til að verja þann árangur sem hefur náðst og afla nýrra markaða.

Í töflunni hér að neðan má sjá samanburð á fjölda ferðamanna í febrúar 2003 og 2004.
Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs eru aðgengilegar í excel-skjali með því að smella hér.

 

Fjöldi ferðamanna í febrúar*
  2003 2004 Aukn.  03-04 %
Bandaríkin 1.990 2.161 171 8,6%
Bretland 3.605 3.683 79 2,2%
Danmörk 917 1.420 503 54,9%
Finnland 290 280 -10 -3,4%
Frakkland 631 667 36 5,7%
Holland 458 514 56 12,2%
Ítalía 108 154 46 42,6%
Japan 238 357 119 50,0%
Kanada 93 89 -4 -4,3%
Noregur 1.616 2.126 510 31,6%
Spánn 65 81 16 24,6%
Sviss 71 64 -7 -9,9%
Svíþjóð 1.217 1.318 101 8,3%
Þýskaland 683 710 27 4,0%
Önnur þjóðerni 966 1.242 276 28,6%
Samtals: 12.948 14.866 1.918 14,8%
 
Ísland 13.790 18.740 4.950 35,9%
Heimild: Ferðamálaráð Íslands, brottfarir erlendra ferðamanna í Leifsstöð.
*Hér eru ekki taldir með farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.