Fara í efni

Fjármunir í framkvæmdir á ferðamananstöðum

Framkvæmdir
Framkvæmdir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að veita 41,9 milljónum til brýnna framkvæmda nú í vor og sumar á friðlýstum svæðum sem jafnframt eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að síðastliðnu ári hafi spunnist miklar umræður um hnignandi ástand fjölmargra fjölsóttra ferðamannastaða. „Umhverfisráðuneytið óskaði þá eftir sérstakri úttekt á þeim svæðum sem Umhverfisstofnun taldi að verst stæðu og þar sem brýnt væri að bregðast við með aðgerðum.“

Í skýrslunni er ástandi svæðanna lýst ásamt brýnustu aðgerðum til að viðhalda verndargildi þeirra og tryggja öryggi ferðamanna sem á svæðin koma. „Í ljósi stóraukningar í fjölda ferðamanna var ákveðið að ráðast strax í aðgerðir á árinu 2011 til að sinna brýnustu verkefnum á rauðlistuðum svæðum. Fyrir fjárveitingu ríkisstjórnarinnar á þessu ári verður unnið að verkefnum við Gullfoss, Geysi í Haukadal, friðlandið í Dyrhólaey, Friðland að Fjallabaki, náttúruvættið á Hveravöllum og náttúruvættið í Surtarbrandsgili.“

Þá segir að helstu verkefni sem unnið verður að á næstu mánuðum eru göngustígar, stikun gönguleiða, útsýnispallar, öryggisgirðingar, merkingar, fræðsluskilti, viðvörunarskilti, gróðurbætur og eftirlit.