Fara í efni

Finn fyrir miklum áhuga á nýjum markaði

Icelandairvél
Icelandairvél

Beint áætlunarflug Icelandair á milli Íslands og Toronto í Kanada hófst í dag. Flogið verður þrisvar í viku í maí og fimm sinnum í viku í sumar en auk þess flýgur Icelandair til Halifax í Kanada.

Hefur fengið góð viðbrögð
Einar Gústavsson forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í N.-Ameríku segir þessi tímamót fagnaðarefni en hann hefur unnið að markaðssetningu flugleiðarinnar síðustu mánuði í gegnum Iceland Naturally verkefnið. ?Þetta er góður dagur fyrir íslenska ferðaþjónustu og ég vil óska Icelandair til hamingju með að hafa tekið þetta skref. Sú mikla umfjöllun sem kynningarstarfið í mars fékk gefur sterklega til kynna að þetta geti ver góður markaður fyrir Ísland og ég finn að landið og einnig Reykjavík er almennt betur þekkt á þessu svæði en t.d. á meðal Bandaríkjamanna," segir Einar.

"Taste of Iceland"
Kynningin í mars sem Einar vísar til er Íslandshátíð sem bar nafnið "Taste og Iceland". Þetta var gríðarlega vel heppnað, vakti mikla athygli og fékk umfjöllun í öllum stærstu fjölmiðlum í Kanada. Meðal annars var boðið upp á íslenskan matseðil á tveimur veitingastöðum borgarinnar þar sem íslenskir kokkar réðu ríkjum, þrjár íslenskar hljómsveitir komu frá Íslandi og tróðu upp, íslensk kvikmyndahátíð var haldin og ýmsir fleiri listviðburðir tengdir landinu voru í boði. Alls komu um 20 manns, listafólk, matreiðslumenn o.fl., til Totonto til að gera hátíðina að veruleika.

Stærsta og mikilvægasta borg Kanada
Einar bendir á að eftir miklu er að slægjast þar sem Toronto er stærsta borg Kanada og  miðpunktur landsins bæði hvað varðar samgöngur og viðskipti og menningu. ?Borgin er miðpunktur í milljónasamfélagi og það hefur vakið athygli mína hversu mikinn áhuga innkoma okkar hér hefur vakið. Þar get ég einkum nefnt þrennt, tónlistina, náttúruna og matinn. Menningartengd ferðaþjónusta er mjög vaxandi þáttur þegar Ísland er annars vegar og þetta er einn liður í því. Vissulega felst veruleg áhætta í því þegar sótt er inn á nýja markaði og nýja flugleið en miðað við fyrstu viðbrögð og áhugann sem okkur hefur verið sýndur þá er það mitt mat að við getum vonandi horft með bjartsýni til framhalds þessa flugs,? segir Einar.