Fara í efni

Ferðaverðlaun The Gardian /Observer vekja mikla athygli

Greinilegt er að val Íslands sem "Uppáhalds Evrópulandið" við afhendingu ferðaverðlauna bresku fjölmiðlana The Guardian og The Observer hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim.

Fjölgun fyrirspurna
Eins og fram hefur komið þykir afar eftirsótt að vinna til þessara verðlauna sem veitt hafa verið árlega undanfarin 17 ár. Verðlaunin byggja á áliti lesenda fjölmiðlanna þannig að það eru ferðamennirnir sjálfir sem eru að kveða upp dóm sinn byggðan á gæðum þeirrar þjónustu sem þeir fengu á ferðum sínum. Starfsfólk Ferðamálaráðs hefur orðið vart við aukinn áhuga á landinu og fjölgun fyrirspurna sem tengja má beint við verðlaunin. Sérstaklega á það við um fjölmiðla sem fjalla um ferðamál. Sem dæmi má nefna að The Observer er með Ísland á forsíðu Escape, sem er ferðaútgáfa blaðsins. Forsíðumyndin er af Bláa lóninu og á eftir fylgir opna með umfjöllun um landið.

Verðlaunin voru eins og fram hefur komið afhent í Marrakesh í Marrókkó og var þar mikið um dýrðir. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, tók við viðurkenningu Íslands í Marrakesh.