Fara í efni

Ferðatorg 2003 um komandi helgi

Ferdatorg2003
Ferdatorg2003

Nú er verið að leggja lokahönd á undirbúning fyrir sýninguna Ferðatorg 2003 sem haldin verður í Vetrargarði Smáralindar um komandi helgi 2.-4. maí nk. Þetta er í annað sinn sem sýningin er haldin en í fyrra heimsóttu hana yfir 20.000 manns og þykir sýnt að þessi viðburður er kominn til að vera.

Að sýningunni standa Ferðamálasamtök Íslands með góðum stuðningi samgönguráðuneytisins. Innan Ferðamálasamtakanna eru átta landshlutafélög sem öll taka þátt í sýningunni. Aðrir sýnendur eru Landmælingar Íslands, Vegagerðin, UMFÍ, Landsvirkjun, Ferðaþjónusta bænda, Umhverfisstofnun, Flugfélag Íslands, og Bandalag íslenskra farfugla.

Ferðatorginu er ætlað að vera markaðstorg ferðaþjónustu á Íslandi þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta komið og kynnt sér þá fjölmörgu valmöguleika sem að er að finna á ævintýralandinu Íslandi. Skipulög dagskrá verður meira og minna alla helgina og er um að ræða atriði sem að koma úr öllum héruðum landsins.

Skipulag og framkvæmd Ferðatorgsins 2003 er í höndum Sýninga ehf., KOM ehf. og Samskipta ehf. í samvinnu við Ferðamálasamtök Íslands. Auk þess hefur Smáralind stutt við bakið á þessu verkefni með góðu samstarfi. meðfylgjandi mynd er frá Ferðatorgi 2002.