Fara í efni

Ferðaþjónustugreining Hagfræðideildar Landsbankans

©arctic-images.com
©arctic-images.com

Í dag kom kom út ferðaþjónustugreining Hagfræðideildar Landsbankans og var kynnt á fjölsóttum fundi í Hörpu. Er þetta þriðja árið í röð sem Landbankinn gefur út greiningu sem þessa.

Batnandi afkoma í greininni

Í skýrslunni er m.a. greint frá niðurstöðu greiningar Hagfræðideildar Landsbankans á ársreikningum tæplega 1200 fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi en þessar upplýsingar hafa ekki verið teknar saman áður. Sú greining bendir til þess að afkoma í greininni hafi batnað, þótt batanum hafi reyndar verið misskipt.

Arðsemi yfir meðaltali

Þegar arðsemi ferðaþjónustunnar er borin saman við aðrar atvinnugreinar á síðustu árum kemur í ljós að hún er nokkuð yfir meðallagi. Arðsemin hefur að meðaltali verið hæst í sjávarútvegi á árabilinu 2008-2011, rúmlega 10%. Ferðaþjónustan kemur þar næst með arðsemi upp á 6%.

Tekið á ýmsum þáttum

Í skýrslunni er fjallað um ýmsa þætti sem tengjast ferðamönnunum sjálfum, m.a. byggt á gögnum Ferðamálastofu, Hagstofunnar o.fl. aðila. Farið er yfir hvaðan ferðamenn koma, hvenær ársins, hversu miklu þeir eyða og í hvað. Einnig er fjallað um þróun fjárfestinga undanfarin ár, um þá fjárfestingu sem stendur fyrir dyrum og nauðsynlegar aðgerðir sem ráðast þarf í til að mæta örum vexti ferðaþjónustunnar.

Skýrslan í heild:
Ferðaþjónusta: Greining Hagfræðideildar Landsbankans