Fara í efni

Ferðaþjónustan í Eyjafirði styrkir snjóframleiðslu í Hlíðarfjalli

Hlíðarfjall
Hlíðarfjall

Fulltrúar nokkurra fyrirtækja, sem flest tengjast ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti, hafa undirritað samstarfssamning við Akureyrarbæ um að leggja fram um 20 milljónir króna til snjóframleiðslunnar í Hlíðarfjalli á næstu fimm árum. Um er að ræða eitt stærsta markaðsverkefni í vetrarferðamennsku sem ráðist hefur verið í norðan heiða.

Fyrirtækin, sem kalla sig Vini Hlíðarfjalls, vilja með samningnum renna styrkari stoðum undir rekstur skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli og efla þar með ferða- og atvinnumál á Akureyri, segir í fréttatilkynningu. Samhliða gefst fyrirtækjunum kostur á að nýta sér sóknarfæri gagnvart aukinni ferðaþjónustu. Hefur verið nefnt sem dæmi að með snjóframleiðslunni sé kominn grunnur að því að skíðasvæðið geti verið opið um jól og áramót, sem séu nýir möguleikar á ferðamarkaði. Snjóframleiðslukerfið í Hlíðarfjalli var tekið í notkun fyrr í vetur og þykir þegar hafa sannað gildi sitt. Fyrirtækin sem um ræðir eru Avion Group; Baugur Group; Flugfélag Íslands; Glitnir; Greifinn; Höldur ? Bílaleiga Akureyrar; Icelandair Group; ISS Ísland; KEA; Landsbankinn ; SBA Norðurleið og Sjóvá. Meðfylgjandi mynd var tekin í Hlíðarfjalli sl. föstudag og er fengin af vef Akureyrarbæjar.