Fara í efni

Ferðaþjónustan eykur hlut sinn í landsframleiðslu

Beint hlutfall ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu (VLF) hefur aukist úr 3,6% árið 2009 í 4,6% árið 2013, samkvæmt tölum sem Hagstofn birti í dag. Hlutur ferðaþjónustu í VLF fór úr 56,3 milljörðum króna árið 2009 í 87,3 milljarða króna árið 2013, eða sem nemur 55% aukningu á nafnvirði. Milli áranna 2009 og 2013 hefur hlutur ferðaþjónustu af VLF vaxið nærfellt þrisvar sinnum hraðar en VLF (sem óx um 18,6%) yfir sama tímabil.

Hlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu

Eingöngu bein efnahagsleg áhrif

Rétt er að vekja athygli á að í þessum ferðaþjónustureikningum eru einvörðungu mæld bein efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu innanlands á þjóðhagstærðir eins og VLF. Ekki er tekið tillit til afleiddra áhrifa ferðaþjónustu innanlands, né heldur til annarra þátta sem snúa að innri eftirspurn í ferðaþjónustu (s.s. fjárfestingu og opinberrar samneyslu í ferðaþjónustu).

Þessi samantekt Hagstofu Íslands á ferðaþjónustureikningum til að reikna áhrif ferðaþjónustu á íslenskan efnahag á árunum 2009-2013 er unnin með tilliti til alþjóðlegra staðla í ferðamálatölfræði og ferðaþjónustureikningum. Hún var unnin í samvinnu við Rannsóknamiðstöð ferðamála með fjármögnun Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Meðal þess sem birt er nú eru niðurstöður úr ferðaþjónustureikningum fyrir hlut ferðaþjónustu í vinnsluvirði og í vergri landsframleiðslu (VLF). Hagstofan tekur fram  að vegna breyttrar aðferðafræði eru þessar tölur ekki sambærilegar við þær sem Hagstofa Íslands birti fram til ársins 2011.

Nánar á vef Hagstofunnar