Fara í efni

Umsvif ferðaþjónustu með mesta móti á liðnu sumri

Mynd:©Íslandsstofa
Mynd:©Íslandsstofa

Ferðamálastofa hefur gefið út samantektina Ferðaþjónusta í tölum – sumar 2025. Þar má sjá samantekt um brottfarartalningar erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, gistinætur á skráðum gististöðum, framboð og nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd og heimsóknir eftir landshlutum.

 

Um 847 þúsund erlendir ferðamenn í sumar

Um 847 þúsund erlendir ferðamenn* komu til landsins um Keflavíkurflugvöll síðastliðið sumar (2025), um tíu prósent fleiri en í fyrrasumar (2024). Þetta er fjölmennasta ferðamannasumarið frá upphafi mælinga. Með þessu hefur verið slegið metið frá 2018, sem fram til þessa hafði staðið sem metsumar hvað varðar fjölda ferðamanna.

Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir, 286 þúsund talsins, sem jafngildir um þriðjungi ferðamanna. Um 7,9% aukningu er að ræða frá fyrra sumri (2024). Í öðru sæti voru Þjóðverjar, um 62 þúsund talsins, 11% fleiri en sumarið 2024. Í þriðja til sjötta sæti komu Frakkar, Bretar, Kanadamenn og Ítalir, um 40 til 42 þúsund hvert þjóðerni, og fjölgaði þeim öllum frá fyrra ári: Frökkum um 22,7%, Bretum um 25,6%, Kanadamönnum um 20,7% og Ítölum um 11,3%.

Langflestir eða um 94% ferðamanna voru í fríi á Íslandi í sumar. Um 2,8% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum og um 1,3% vegna ýmissa persónulegra ástæðna s.s. vegna náms eða heilsufars. Um 2,3% voru í annars konar tilgangi.

Um 85% ferðamanna heimsóttu höfuðborgarsvæðið á ferð sinni um landið, um 80% Suðurland, um 67% Reykjanes, 56% Vestuland, 50% Norðurland, 43% Austurland og 25% Vestfirði.

 

Meðalfjöldi gistinótta 8,2 nætur

Ferðamenn dvöldu að jafnaði 8,2 nætur á ferðalögum um Ísland síðastliðið sumar. Samanburðargögn fyrir árið 2024 liggja ekki fyrir, en árin þar á undan gefa til kynna lítilsháttar lengri dvöl eða 8,6 nætur árin 2022 og 2023.

Bandaríkjamenn, sem hafa langmest vægi vegna hárrar hlutdeildar í komum ferðamanna, dvöldu að jafnaði 6,9 nætur sumarið 2025, álíka lengi og 2023 og 2022. Af tíu fjölmennustu þjóðernunum dvöldu Þjóðverjar lengst eða 11,2 nætur en þar á eftir komu Frakkar með 10,9 gistinætur og Hollendingar með 9,8 nætur.

 

Gistinætur á hótelum með mesta móti

Gistinætur á hótelum voru um 1,8 milljónir talsins síðastliðið sumar (2025), um 176 þúsund fleiri (+10,5%) en þær voru sumarið 2024. Hótelgistinætur hafa ekki áður mælst svo margar að sumri til.

Um níu af hverjum tíu gistinóttum voru tilkomnar vegna erlendra ferðamanna, alls um 1,7 milljónir talsins, sem er um 279 þúsund fleiri (+19,7%) en í fyrrasumar (2024).


Nýting herbergja á hótelum um 90% í júlí og ágúst

Sumarið 2025 voru í boði tæplega 13 þúsund hótelherbergi á landinu þegar mest var (í ágúst), þar af voru 44,5% á höfuðborgarsvæðinu. Framboð herbergja jókst lítillega á landsvísu frá því í fyrrasumar (2024).

Herbergjanýting á hótelum á landsvísu var 79,9% í júní, 88,9% í júlí og 89,7% í ágúst. Í júní var nýtingin 84,7% á Suðurlandi, 81,6% á höfuðborgarsvæðinu og á bilinu 68-78% í öðrum landshlutum. Í júlí og ágúst fór nýtingin í um eða yfir 90% á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Austurlandi. Nýtingin á Norðurlandi og Suðurnesjum í júlí og ágúst var frá 84% til 86%, en á Vesturlandi/Vestfjörðum var hún lægri, eða 79% í júlí og 72,8% í ágúst.

 

Gistinætur aldrei fleiri að sumri

Gistinætur á skráðum gististöðum voru um 4,5 milljónir síðastliðið sumar (2025) og hafa aldrei áður mælst svo margar. Fyrra met var frá sumrinu 2023, þegar gistinætur voru 4,1 milljón, um 472 þúsund færri (-10,4%) en sumarið 2025.

Flestum gistinóttum sumarið 2025 var eytt í júlí (38,5%), rúmum þriðjungi (35,3%) í ágúst og ríflega fjórðungi (26,2%) í júní.

Vegna endurskoðunar Hagstofunnar á gistináttagögnum var ekki unnt að birta sundurliðun eftir þjóðernum fyrir aðrar tegundir gistingar en hótel.

 

* Fjöldatölur taka mið af brottfarartalningum Ferðamálastofu og Isavia á Keflavíkurflugvelli og ber að skoða tölurnar með þeim  fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér.