Fara í efni

Upptaka af fyrirlestri: Ferðaþjónusta á Íslandi og Covid-19 - staða og greining fyrirliggjandi gagna

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Rannsakendur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) kynntu í gær á vegum Ferðamálastofu í beinu streymi um netið stöðu verkefnis og greiningu fyrirliggjandi gagna í rannsókn á seiglu og þrautseigju í ferðaþjónustu og hvernig megi styðja við hana. RMF tók að sér að vinna þessa rannsókn fyrir Ferðamálastofu sl. haust. Skilaði miðstöðin áfangaskýrslu, sem nálgast má hér, um mitt sumar í ár og er kynningin nú fyrst og fremst byggð á henni. RMF vinnur nú að seinni hluta verkefnisins og verður því skv. áætlun lokið fljótlega eftir næstu áramót með fullnaðargreiningu sem kynnt verður betur á þeim tíma.

Margt áhugavert kom fram í erindi þeirra Írisar Hrundar Halldórsdóttur og Önnu Guðrúnar Ragnarsdóttur hjá RMF um þetta efni en glæruefni þeirra má nálgast hér. Meðal annars kom fram að:

  • Ætla má að tapaður virðisauki í ferðaþjónustu vegna COVID-19 á árinu 2020 hafi verið um 149 milljarðar króna, m.v. að fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi hefði annars verið um 2 milljónir eins og spáð var. 

  • Tímabilið 2010-2016 var vöxtur í virðisauka ferðaþjónustunnar en á honum hægðist eftir 2016. Virðisauki og hagnaður á hvern ferðamann hafa dregist saman á ári hverju allt frá 2010 og til 2017 og 2018.  Ljóst er því að ferðaþjónustan var rekstrarlega í erfiðri stöðu og illa í stakk búin að takast á við niðursveiflu í hagkerfinu, hvað þá þann mikla samdrátt í eftirspurn sem varð í kjölfar COVID-19. 

  • Ferðaþjónustufyrirtæki fengu úthlutað 65% af þeim stuðningi sem ætlaður var rekstraraðilum (utan sjálfkrafa frestunar á skattgreiðslum) á árinu 2020. Rúm 44% af hlutabótum ársins 2020 fóru til einstaklinga í ferðaþjónustu. Hæst var hlutfallið hjá þeim sem störfuðu við veitingaþjónustu eða 14,4% og síðan til þeirra sem unnu á gististöðum eða 12,7%. Mestu fjármagni í tengslum við mótvægisaðgerðir til rekstraraðila ferðaþjónustunnar árið 2020 var úthlutað til fyrirtækja í gistirekstri eða 19,2%. 

  • Samdráttur í tekjum veitingahúsa var ekki eins mikill og í öðrum greinum ferðaþjónustunnar og hluti veitingastaða á landsbyggðunum upplifði sitt besta sumar árið 2020.