Fara í efni

Ferðaskrifstofuleyfi Farvel fellt niður og starfsemi hætt

Ferðamálastofa hefur fellt niður ferðaskrifstofuleyfi Farvel ehf. þar sem fyrirtækið uppfyllti ekki lengur skilyrði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun um skil gagna og hafði ekki sinnt ákvörðun Ferðamálastofu um hækkun tryggingarfjárhæðar. Farvel ehf. hefur nú hætt starfsemi.

Stöðvun starfseminnar mun hafa áhrif á ferðaplön á milli 100 og 200 manns. Þar sem Farvel ehf. hefur ekki skilað inn hækkaðri tryggingu, í samræmi við vaxandi umsvif fyrirtækisins, liggur fyrir að tryggingafé Farvel dugar ekki til að endurgreiða áætlaðar kröfur þeirra sem hafa greitt fyrir eða inn á pakkaferðir á vegum fyrirtækisins.

Fólk er hvatt til að kanna samhliða rétt sinn hjá tryggingafélögum og kortafyrirtækjum.

Mikilvægar upplýsingar til viðskiptavina Farvel

  • Ferðamálastofa mun ekki halda úti neinum ferðum, þ.e.a.s. Ferðamálastofa mun ekki milliganga að farið verði í einhverjar ferðir sem hafa verið bókaðar.
  • Þeir sem hafa greitt inn á pakkaferð með Farvel ehf. geta sett fram kröfu í tryggingarfé Farvel hjá Ferðamálstofu.
  • Fyrir liggur að kröfur verði því miður EKKI greiddar að fullu, líkt og tilgreint er hér að ofan.

Að lýsa kröfum vegna endurgreiðslu

  • Frestur til að setja fram kröfu í tryggingafé Farvel er 8. mars næstkomandi.
  • Krafa í tryggingarfé er send inn í gegnum þjónustugátt á vef Ferðamálastofu Skrá þarf sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum.
  • Með kröfunni þarf að senda gögn sem sýna fram á kaup pakkaferðar þ.e.a.s. kvittanir fyrir greiðslu, farseðla, pakkaferðasamninginn eða hvers kyns ferðagögn. Kröfur sem ekki eru studdar fylgigögnum verða ekki teknar til greina.
  • Fyrst þegar kröfulýsingarfresturinn er liðinn er hægt að taka afstöðu til allra krafna.
  • Öllum kröfuhöfum er svarað formlega. Ákvarðanir Ferðamálastofu lúta ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hægt er að senda fyrirspurnir á mail@ferdamalastofa.is en reikna má með að vegna hátíðisdaganna framundan taki lengri tíma að svara erindum en ella.