Ferðamennska í Evrópu vex áfram fyrstu mánuði ársins 2025 – þrátt fyrir óvissu í heiminum
Ferðamennska í Evrópu var almennt áfram á góðu skriði í byrjun árs 2025, þrátt fyrir óvissu bæði í efnahagsmálum og heimsmálunum almennt. Samkvæmt fyrstu ársfjórðungsskýrslu Evrópska ferðamálaráðsins – ETC (European Tourism: Trends & Prospects) fjölgaði komum erlendra ferðamanna um 4,9% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við sama tímabil í fyrra. Gistinætur jukust einnig um 2,2% á fyrstu mánuðum ársins.
Samdráttur hjá dýrari áfangastöðum
Þróunin er þó mismunandi eftir löndum og til að mynda bendir ETC á að hjá dýrari áfangastöðum, hjá borð við Ísland og Mónakó, hafi verið samdráttur.
Hagkvæmni og ferð utan háannar
Ferðalangar eru sífellt meðvitaðri um verð og sækjast eftir góðum tilboðum og ferðalögum utan háannatíma. Þessi þróun hefur haldið áfram frá árinu 2024, þegar ferðalög voru komin fram úr því sem þau voru á árunum fyrir Covid 19.
Vetraráfangastaðir fá byr í seglin
Áfangastaðir eins og Noregur og Slóvakía blómstra í vetrarferðamennsku. Noregur hefur átt sérlega góðu gengi að fagna og auk fjölgunar náð að lengja dvöl fólks. Gistinætur fóru þannig upp um rúm 15,3 frá fyrra ári um um þriðjung sé horft aftur til 2019.
Ítalía heldur einnig áfram að laða til sín ferðamenn sem leita hagkvæmari skíðaferða, á meðan ferðir dragast lítillega saman til sumra hefðbundinn skíðalanda, eins og Austurríkis.
Austur-Evrópa á uppleið
Lönd sem hafa áður átt undir högg að sækja vegna nálægðar við Úkraínustríðið eru nú að ná vopnum sínum. Ferðamennska hefur tekið kipp í Póllandi, Lettlandi og Ungverjalandi. Innganga Rúmeníu og Búlgaríu í Schengen-svæðið í janúar auðveldar nú ferðalög til þessara landa, segir ETC.
Suðrið nýtur góðs af mildum vetri
Miðjarðarhafslönd njóta vaxandi vinsælda yfir vetrartímann. Spánn, Kýpur og Malta hafa séð mikla aukningu í komum ferðamanna, þar sem fleiri kjósa að ferðast í þessara landa í minni hita og forðast sumarþrengsli. „Cool-cations“ eru orðin vinsælt fyrirbæri – þ.e. ferðalög til þessara suðlægu áfangastaða utan háannar og á árstíma þegar loftslag er svalara.
Verð skiptir máli
Ferðakostnaður hefur hækkað og ferðafólk horfir meira til hagkvæmari valkosta. Pakkaferðir, bæði innanlands og utan, hafa hækkað um 10–12% síðan í fyrra. Þetta hefur leitt til styttri ferða og aukinnar eftirspurnar eftir ódýrari áfangastöðum eins og Rúmeníu.
Óvissa í samskiptum við Bandaríkin
Nýir tollar í Bandaríkjunum skapa óvissu um ferðir yfir Atlantshafið, og dýrara ferðalag gæti haft áhrif á áhuga bandarískra ferðamanna. Samt sem áður héldu Bandaríkjamenn áfram að sækja Evrópu heim í byrjun árs – yfir 80% af áfangastöðum í Evrópu greindu frá aukningu í komum frá Bandaríkjunum.