Fara í efni

Ferðamennska á miðhálendi Íslands: Staða og spá um framtíðarhorfur

Ferðamennska á miðhálendi Íslands
Ferðamennska á miðhálendi Íslands

Í vor kom út skýrsla sem Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, skrifaði að beiðni Skipulagsstofnunar. Skýrslan nefnist „Ferðamennska á miðhálendi Íslands: Staða og spá um framtíðarhorfur“

Byggir á rannsóknum síðustu tíu ár
Í inngangi kemur fram að Skipulagsstofnun óskaði eftir stuttri samantekt á þeim rannsóknum sem skýrsluhöfundur hefur gert á ferðamennsku á miðhálendi Íslands undanfarin áratug og með hliðsjón af þeim og þeim fræðum sem til eru um efnið, vangaveltum um framtíðarþróunina á miðhálendinu. Í umfjölluninni er stuðst við gögn sem höfundur hefur safnað á 11 stöðum á hálendinu í tengslum við rannsóknir á viðhorfum ferðamanna. Kannanirnar eru frá mismunandi tímum, frá árinu 2000 til ársins 2011. Einnig er notast við tölulegar upplýsingar úr könnunum sem gerðar hafa verið af, eða fyrir, Ferðamálastofu sem og frá Hagstofu Íslands.

Viðkvæm auðlind sem hratt hefur gengið á
Í niðurstöðum segir Anna Dóra meðal annars: „Af þessari umfjöllun má sjá að hálendið og þeir víðerniseiginleikar sem gefa svæðinu mikið upplifunargildi er mjög viðkvæm auðlind sem verður að fara mjög varlega í að nýta frekar fyrir ferðamennsku og útivist. Á þessa auðlind hefur verið gengið mjög hratt undanfarin sextíu til sjötíu ár og svo mun væntanlega óhjákvæmilega verða áfram um næstu framtíð. Mikilvægt er þó að hægja á og grípa inn í þróunina áður en auðlindin er gengin til þurrðar.“

Skýrt og vel útfært skipulag lykilatriði
Þá segir að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir áhrifum ferðamennsku áður en svæðum er umbreytt á þann hátt sem gert hefur verið í Landmannalaugum. „Vegur, brú, fjallaskáli, gönguleiðir, auglýsing í formi fræðsluþáttar í sjónvarpi, geta þýtt að svæði verða aðgengileg og þekkt og ferðamenn taki að sækja þangað. Því er mikilvægt að huga að afleiðingum allra framkvæmda áður en ráðist er í þær, en ekki láta tilviljun eina, handahófskenndar fjárveitingar, eða ákveðna þrýstihópa ráða því hvar og hvernig ferðamannastaðir byggjast upp. Skýrt og vel útfært skipulag þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi er lykilatriði fyrir nýtingu þeirrar viðkvæmu auðlindar sem hálendið er,“ segir í skýrslunni en hún er aðgengileg í heild hér að neðan.