Fara í efni

Ferðamenn í júlí tæplega 100 þúsund

Brottfarir erlendra gesta í júlí
Brottfarir erlendra gesta í júlí

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 97.757 erlendir ferðamenn frá landinu í júlí síðastliðnum eða um 14 þúsund fleiri en í sama mánuði á síðasta ári. Aukningin nemur 17,1% milli ára. Ferðamenn hafa aldrei verið fleiri í júlímánuði eða frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Leifsstöð árið 2002.

Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega aukningu frá N-Ameríku eða um 59%. Bretum fjölgar um 13,5%, Norðurlandabúum um 11,5% og Mið- og S-Evrópubúum um 6,2%. Aukningin frá löndum sem eru flokkuð undir annað er ennfremur umtalsverð eða 18,4% milli ára.

Bandaríkjamenn og Þjóðverjar langfjölmennastir

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í júlí frá Bandaríkjunum (13,9%) og Þýskalandi (12,8%). Ferðamenn frá Danmörku (8,2%), Frakklandi (8,1%), Bretlandi (7,2%), Noregi (5,7%) og Svíþjóð (5,0%) fylgdu þar á eftir en samanlagt voru framangreindar sjö þjóðir 61% ferðamanna í júlímánuði.

Ferðamenn frá áramótum

Það sem af er ári hafa 304.643 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 50 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,6% milli ára. Aukning hefur verið milli ára frá öllum mörkuðum en N-Ameríkanar hafa þó borið uppi aukningu ársins en þeim hefur fjölgað um 51,2% frá því í fyrra. Norðurlandabúum hefur fjölgað um 17,7%, Mið- og S-Evrópubúum um 15,2%, Bretum um 8,8% og  ferðamönnum frá öðrum löndum um 14%.

Ferðir Íslendinga utan

Brottförum Íslendinga í júlí hefur fjölgað um 14,7% frá því í fyrra, voru 32.629 í ár en 28.453 í fyrra. Frá áramótum hafa 195 þúsund Íslendingar farið utan, 21,3% fleiri en árinu áður þegar brottfarir mældust tæplega 161 þúsund.

Hér má sjá nánari skiptingu úr talningum Ferðamálastofu eftir þjóðerni og markaðssvæðum.