Fara í efni

Ferðamannalandið Ísland kynnt í Japan

Tokyo
Tokyo

Ólöf Ýrr Atladóttir Ferðamálastjóri er nú stödd í Tókíó þar sem Útflutningsráð Íslands og Ferðamálastofa, í samvinnu við sendiráð Íslands í Japan, kynna Ísland og viðskiptatækifæri á Íslandi.

Áhersla verður lögð á að kynna íslenska ferðaþjónustu og tækifæri hér á landi til fjárfestinga. Samtals taka 14 fulltrúar fyrirtækja og stofnana þátt í ferðinni auk forsvarsmanna Útflutningsráðs og Ferðamálastofu. Í viðskiptasendinefndinni eru fulltrúar sjö ferðaþjónustufyrirtækja sem munu kynna Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn. Fulltrúar Fjárfestingarstofu munu kynna kosti Íslands sem tökustað fyrir kvikmyndir af ýmsu tagi, auk þess að eiga viðræður við fulltrúa japanskra fyrirtækja sem sýnt hafa áhuga á fjárfestingum á Íslandi á nokkrum sviðum. Einnig verður hugað að nýjungum í sölumálum á sjávarfangi á Japansmarkaði.

Á fundi hjá Japansk-íslenska viðskiptaráðinu á morgun munu gefast tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum um stöðu mála hér á landi og ítreka þá staðreynd að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar standa enn traustum fótum.