Ferðamálastofa verði efld og fjárfesting í markaðssetningu aukin

Ferðamálastofa verði efld og fjárfesting í markaðssetningu aukin
FolkundirKletti

Nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði um miðjan febrúar 2008 til að fjalla um skipulag og fjármögnun ferðaþjónustu hefur skilað tillögum sínum. Tillögurnar eru mikilvægur þáttur í endurskoðun á ferðamálaáætlun og framtíðarskipan málaflokksins eftir flutning hans til iðnaðarráðuneytis. Frá þessu er greint í frétt á vef iðnaðarráðuneytisins í dag.

Ferðamálastofa verði efld sem opin og greiðfær gátt
Fram kemur að í starfi sínu greindi nefndin ýmsa grundvallarþætti og gildi sem tillögur hennar hvíla á og leggur ríka áherslu á að lykilatriði í aðkomu hins opinbera að skipulagi og fjármögnun í ferðaþjónustu skuli vera gegnsæi, langtímahugsun, heildstæð nálgun, sjálfbærni og mælanlegur árangur. Einnig koma fram tillögur t.d. um að Ferðamálastofa verði efld sem opin og greiðfær gátt fyrir aðkomu hins opinbera að ferðaþjónustu, samstarf stofnana sem fjalla um ferðamál verði aukið og meginferðamannastöðum (seglum) verði fjölgað. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur einnig fram að ferðaþjónustan líði fyrir núverandi fyrirkomulag í fjárfestingu hins opinbera í ferðaþjónustu sem einkennist af ?skammtímahugsun og sveiflukenndum fjárfestingum".

Tillögurnar voru kynntar á síðasta fundi ferðamálaráðs sem fagnaði þeim og hvatti til að framkvæmd þeirra hæfist sem fyrst.

Formaður nefndarinnar var Svanhildur Konráðsdóttir, formaður ferðamálaráðs og sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Aðrir í nefndinni voru alþingismennirnir Árni Páll Árnason og Ólöf Nordal, Adolf H. Berndsen, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðvesturlandi, Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, Jón Karl Ólafsson, fyrrv. formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, Sigríður Á. Snævarr sendiherra og Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda.

Tillögur nefndarinnar (PDF)

 


Athugasemdir