Fara í efni

Ferðamálastofa meðal stofnaðila Golf Iceland

Golf Iceland stofnfundur
Golf Iceland stofnfundur

Ferðamálastofa er meðal stofnaðila samtakanna Golf Iceland en stofnfundur þeirra var haldinn í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær. Hvað uppbyggingu og ýmsa starfsemi varða eru samtökin hugsuð á hliðstæðan hátt og Cruise Iceland, það er að kynna þennan sérhæfða þátt ferðaþjónustunnar sem golfið er.

Meðal stofnenda samtakanna, sem eru 20 talsins, eru flestir golfklúbbar landsins sem reka 18 holu velli, auk nokkurra fyrirtækja úr ferðaþjónustunni. Má þar t.d. nefna Icelandair, RadissonSAS, Icelandairhotels og Bílaleigu Akureyrar, að því er fram kemur á heimasíðu Golfsambandsins. Fyrsti stjórnarformaður var kjörinn Magnús Oddsson, fyrrverandi ferðamálastjóri.

Forsögu málsins má rekja til þess að ferðamálanefnd Golfsambands Íslands kynnti áfangaskýrslu sína um golf og ferðaþjónustu á síðasta golfþingi og kom þar fram að unnið væri að því að stofna samtök til að stuðla að fjölgun erlendra kylfinga hingað til lands. Samtökin urðu að veruleika í gær eins og áður segir. Mynd: Frá stofnfundinum í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í gær (af heimasíðu GSÍ).