Fara í efni

Ferðamálastofa hlýtur Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2022

Eliza Jean Reid forsetafrú afhenti verðlaunin og hér veitir Áslaug Briem, verkefnastjóri gæðamála hj…
Eliza Jean Reid forsetafrú afhenti verðlaunin og hér veitir Áslaug Briem, verkefnastjóri gæðamála hjá Ferðamálastofu, þeim viðtöku.
Ferðamálastofa hlaut í dag Hvatningarverðlaun ÖBÍ árið 2022 fyrir verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Grand hótel í Reykjavík  í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks.
 
Í umsögn ÖBÍ segir m.a.: "Verkefnið ýtir undir þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðlar að einu samfélagi fyrir alla – og er í senn metnaðarfullt og tímabært. Með framsýni stuðlar Ferðamálastofa að nýrri nálgun og hugsunarhætti í ferðaþjónustu á landsvísu. Strax í upphafi hafði stofan frumkvæði að því að leiða saman ólíka aðila til samstarfs og tryggja þannig gæði verkefnisins.
 
Gott aðgengi fyrir fatlað fólk leiðir af sér betra aðgengi fyrir alla. Aðgengi fyrir alla að ferðaþjónustu er mannréttindamál og ætti að vera hluti af ábyrgri starfsemi allra fyrirtækja – til hamingju!"
 

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila

Ferðamálastofa stendur að verkefninu í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörgu og ÖBÍ réttindasamtök. Um er að ræða fræðslu- og hvatningarverkefni en með því vilja samstarfsaðilar bregðast við því sem lengi hefur verið kallað eftir, en það er að bæta aðgengi fyrir fatlaða í ferðaþjónustu. Verkefninu er ætlað að vekja athygli forsvarsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu á þessum mikilvæga málaflokki og aðstoða ferðaþjónustuaðila við að taka á öruggan og ábyrgan hátt á móti hreyfihömluðum og fötluðum einstaklingum þannig að aðstaða og þjónusta sé í samræmi við þarfir þeirra. Við hvetjum því ferðaþjónustuaðila til að kynna sér verkefnið Gott aðgengi í ferðaþjónustu sem fyrst.
 

Aðrar tilefningar

 
Alls voru 8 tilnefningar til hvatningarverðlaun ÖBÍ í ár en það voru:
 
  • Arna Sigríður Albertsdóttir
    – vitundarvakning, hreyfing og íþróttaiðkun fatlaðs fólk
  • Ferðamálastofa
    – verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“
  • Harpa Cilia Ingólfsdóttir
    – framlag til aðgengismála fatlaðs fólks
  • Helga Eysteinsdóttir
    – náms- og starfsendurhæfing fatlaðs fólks
  • Ingi Þór Hafsteinsson
    – frumkvæði að veiðiferðum fatlaðra barna
  • Piotr Loj
    – þjálfun og upplifun fyrir fatlað fólk í gegnum sýndarveruleika
  • Rannveig Traustadóttir
    – framlag til réttindabaráttu fatlaðs fólks
  • Sylvía Erla Melsted

    – vitundarvakning, lesblinda

Fulltrúar þeira sem fengu tilnefningu til Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2022, ásamt Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni ÖBÍ og Elizu Jean Reid forsetafrú. Myndir: ÖBÍ