Fara í efni

Ferðamálastofa fyrirmyndarstofnun 2007

Fyrirmyndarstofnun 2007
Fyrirmyndarstofnun 2007

Eins og undanfarin ár þá stóð SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu fyrir könnun nú í vetur í leit að "Stofnun ársins". Alls fengu nær 6000 ríkisstarfsmenn senda spurningarlista í nær 200 stofnunum.

Listi hefur verið birtur yfir 99 stofnanir og einkunnagjöf í hverjum flokki en spurt er um fjölmarga flokka, svo sem starfsumhverfi, sjálfstæði í störfum, sveigjanleika í vinnu, álag og kröfur, starfsanda, trúverðugleika stjórnenda o.fl. Sú stofnun sem hlýtur hæsta meðaleinkunn er útnefnd "Stofnun ársins 2007". Þær stofnanir sem eru í 2.-10. sæti fá sérstaka viðurkenningu: "Fyrirmyndarstofnun 2007".
 
Byggir á fyrirmyndarstarfsfólki
Ferðamálastofa varð nú í 8 sæti og fær því að nota í allri sinni kynningu og auglýsingum í eitt ár sérstak merki þessarar viðurkenningar: " Fyrirmyndarstofnun 2007". Magnús Oddsson ferðamálastjóri tók við viðurkenningu í hófi á Hótel Nordica sl. föstudag og sagði m.a.:  "Fyrirmyndarstofnun verður ekki slík nema vegna þess að þar starfi fyrirmyndarstarfsfólk. Þjónustustofnun byggir fyrst og fremst á þekkingu og hæfni starfsfólksins og það á þessa viðurkenningu. Þetta er mjög ánægjulegt og er okkur sem stýrum stofnuninni hvati til að gera enn betur í keppni þessara 200 aðila. Ég lít þar ekki síst til þeirra þátta sem við skorum lægra en aðrir og við munum reyna að veita öðrum harða keppni með að bæta þá án þess að slaka á þeim þar sem við fáum hæstu einkunn," sagði Magnús. Á myndinni hér að neðan er hann í hópi fleiri forstöðumanna ríkisstofnana að taka við viðurkenningunni.