Fara í efni

Ferðamálastofa á grænum reit

Ferðamálastofa á grænum reit

Ferðamálastofu skrifaði í dag undir samstarf við Reiti fasteignafélag um svonefnda græna leigu fyrir starfsstöð stofnunarinnar á Akureyri.

Hvað felst í grænni leigu?

Græn leiga byggist á samkomulagi milli Reita fasteignafélags og leigutaka þar sem báðir aðilar skuldbinda sig til að reka húsnæðið með vistvænum hætti. Græn leiga tekur m.a. til endurvinnslu og sorpmála, innkaupa á rekstrar- og byggingarvörum og notkunar rafmagns og hitaveitu. Grænir leigusamningar hafa færst í vöxt erlendis í kjölfar vaxandi áherslu á umhverfismál.

Græn leiga er í takt við umhverfisstefnu Ferðamálastofu og þær áherslur sem felast í VAKANUM, gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar.

Fyrsta græna leigan á Akureyri

Húsnæðið, sem er á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis og í daglegu tali nefnt KEA-húsið, er nýuppgert og fyrsta húsnæði bæjarins sem leigt er með þessum hætti. Við endurnýjun hússins var leitast við að nýta sem mest af þeim byggingarefnum sem voru heil en við val á nýjum efnum leitast við að gera vellíðan starfsfólks hátt undir höfði m.a. með umhverfisvænum teppum sem bæta hljóðvist og draga úr ryki í lofti. KEA húsið verður fyrsta húsnæði bæjarins sem leigt er út með þessum hætti hjá fasteignafélaginu Reitum.

Hvatt til heilsusamlegs og vistvæns ferðamáta

Auk Ferðamálastofu hafa nú einnig flutt starfsemi sína í húsið Markaðsstofa Norðurlands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Eyþing og Vaðalheiðargöng. Fyrir voru fleiri fyrirtæki og stofnanir. Vistvænar áherslur felast m.a. í því að allt sorp er flokkað og lögð áhersla á að halda pappírsnotkun í lágmarki. Hvatt er til vistvæns og heilsusamlegs ferðamáta þar sem hjólastandar eru við húsið auk sturtuaðstöðu fyrir starfsmenn.

Skrifað undir samninginn

Skrifað undir samninginn. Frá vinstri: Sigurður Steingrímsson frá Nýsköpunarsmiðstöð, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Arnheiður Jóhannsdóttir frá Markaðsstofu Norðurlands, Guðjón Auðunsson frá Reitum, Pétur Þór Jónasson frá EYÞING og Valgeir Bergmann frá Vaðlaheiðargöngum.