Fara í efni

Ferðamálastjóri Kína í heimsókn til Íslands

ChinaNationalFlag
ChinaNationalFlag

Nú á sunnudaginn 16. maí kemur ferðamálastjóri Kína, Hr. He Guang Wei, í heimsókn til Íslands ásamt fjórum starfsmönnum ferðamálaráðs Kína. Dvelja þeir hér fram á miðvikudag.

Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að eftir undirritun samnings á milli Íslands og Kína fyrir skömmu um ferðamál, svonefnt ADS samkomulag, hafi He Guang Wei óskað eftir því að koma hingað í heimsókn bæði til að kynnast örlitlu af landinu sem áfangastað og einnig að ræða við íslensk ferðamálayfirvöld atriði í framhaldi af umræddum samningi.

Áhugaverð heimsókn
"Heimsóknin verður sambland af fundum og skemmtun og Hr. He Guang Wei hafði mjög ákveðnar hugmyndir um það hvað hann vildi kynna sér og sjá. Hann lét t.d. sérstaklega í ljós ósk um að fá að spila golf hér á landi, sem auðvitað verður. Það verður mjög athyglisvert að fá að hitta ferðamálstjóra þessa fjölmenna og stóra lands ásamt hans nánustu aðstoðarmönnum og heyra skoðanir þeirra og áætlanir um hvernig þessi atvinnugrein muni þróast þar og hvernig þeir sjá samstarf okkar í ferðamálaum þróast," segir Magnús.