Fara í efni

Ferðamálasetrið kannar hagræn áhrif ferðaþjónustu

konamedhufu
konamedhufu

Eitt af þeim verkefnum sem Ferðamálasetur Íslands er með í vinnslu nefnist "Hagræn áhrif ferðaþjónustu". Verkefnið hlaut ekki alls fyrir löngu 1,7 milljóna króna styrk frá Byggðastofnun og hafði áður hlotið styrki úr Háskólasjóði KEA og Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri.

Verkefnið fór af stað að frumkvæði Bergþóru Aradóttur sérfræðings hjá Ferðamálasetrinu. Fengnir voru til samstarfs aðilar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Þá hafa bæði Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálaráð sýnt verkefninu áhuga og velvilja. Miðar verkefnið að því að kanna bein hagræn áhrif ferðaþjónustu á byggðarlag og meta þau útfrá sölutekjum ferðaþjónustufyrirtækja, launagreiðslur þeirra og ársverk. Akureyri er notuð sem rannsóknarvettvangur nú en aðferðafræðin sem þróuð verður mun síðan nýtast fyrir hvaða byggðarlag sem er. Framkvæmd var spurningakönnun sl. sumar sem eins konar forkönnun en áðurnefndur styrkur frá Byggðastofnun mun fleyta verkefninu áfram og er áætlað að ákveðnum áföngum ljúki á þessu ári.

Þessa má geta að fyrir nokkru fylgdi Morgunblaðinu kynningarrit frá Háskólanum á Akureyri þar sem starfsemi Ferðamálasetursins var kynnt. Kynning á Ferðamálasetri Íslands (pdf)