Fara í efni

Ferðamálaráðstefnan 2005 hafin

Ráðstefna 2005_1
Ráðstefna 2005_1

Ferðamálaráðstefnan 2005 stendur nú yfir á Radisson SAS Hótel Sögu. Ráðstefnan er sú 36 í röðinni en Ferðamálaráð Íslands hélt fyrstu ráðstefnuna árið 1965 á Akureyri þannig að hún á nú 40 ára afmæli.

Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar og svo er einnig nú en um 200 manns sitja hana að þessu sinni. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða.

Ávörp samgönguráðherra og borgarstjóra
Ráðstefnan hófst með vörpum Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra og Steinunnar V. Óskarsdóttur borgarstjóra. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu og inngangserindið flytur Hannes Smárason, forstjóri FL Group. Næst flytur erindi Anneke Dekker, framkvæmdastjóri Island Tours Hollandi, og fjallar um markaðslega samkeppnishæfni Íslands, frá sjónarhorni erlends seljanda. Menningarleg samkeppnishæfni Íslands er síðan yfirskrift næsta erindis sem Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri flytur. Að loknu hádegishléi verður kynning á nýju ráðstefnu- og tónlistarhúsi í Reykjavík sem Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar ehf., annast. Þá mun Magnús Oddsson, ferðamálastjóri fara yfir væntanlegar breytingar á Ferðamálaráði með stofnun Ferðamálastofu um næstu áramót. Afhending lokaverkefnisverðlauna Ferðamálaseturs Íslands fyrir árið 2005 fylgir í kjölfarið og þá almennar umræður og afgreiðsla ályktana. Ráðstefnuslit eru áætluð kl 16:00.

Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs
Í kvöld er móttaka í boði samgönguráðherra og í kjölfarið hefst kvöldverður og skemmtun. Þar fer samkvæmt venju fram afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2005.

Mynd: Lúðvík Geirsson, fundarstjóri á Ferðamálaráðstefnunni, í ræðustóli.