Fara í efni

Ferðamálaráð lýsir áhyggjum af áhrifum hvalveiða á ferðaþjónustu og orðspor landsins

Hvalur
Hvalur

Ferðamálaráð hefur sent iðnaðarráðherra, ráðherra ferðamála, yfirlýsingu þess efnis að ráðið taki undir þær áhyggjur sem Samtök ferðaþjónustunnar og fyrirtæki í Hvalaskoðunarsamtökum Íslands, hafa þegar lýst af fyrirhuguðum hvalveiðum Íslendinga. Í yfirlýsingunni segir einnig:

?Mikil vinna er framundan við að styrkja ímynd og orðspor landsins á erlendum vettvangi og er ekki síst horft til ferðaþjónustunnar í þeim efnum. Með því að leyfa hvalveiðar er þeim sem starfa að landkynningu gert erfitt fyrir auk þess sem fyrirtæki sem lagt hafa í miklar fjárfestingar vegna hvalaskoðunar eru verulega uggandi um afkomu sína.

Ferðamálaráð telur það því grundvallaratriði fyrir hagsmuni ferðaþjónustunnar að lykilsvæðum fyrir hvalaskoðun verði hlíft við veiðum og umferð hvalveiðibáta, sem fyrirsjáanlegt er að fari af stað á vordögum. Ráðið leggur jafnframt ríka áherslu á að fulltrúar ferðaþjónustunnar eigi formlega aðild að þeim viðræðum sem í hönd fara um endurskoðun ákvörðunar um hvalveiðar.

Ferðamálaráð mælist til þess að ráðherra beiti sér fyrir því að ofangreindum sjónarmiðum verði mætt og að ríkir hagsmunir ferðaþjónustunnar vegi þungt í þeim ákvörðunum sem framundan eru í þessu efni?.

Einn fulltrúi í ráðinu lagði fram bókun þess efnis að hvalveiðar og hvalaskoðun geti farið saman og veiðarnar verði stundaðar í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknunarstofnunar.

Frekari upplýsingar veitir Svanhildur Konráðsdóttir, formaður ferðamálaráðs í síma 693 9363