Fara í efni

Ferðamálaráð á Seyðisfirði

FundurSeydisfirdi
FundurSeydisfirdi

Síðastliðinn fimmtudag héldu fulltrúar í Ferðamálaráði, ásamt Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra, til Seyðisfjarðar. Tilgangurinn var að skoða nýju Norrænu og þá glæsilegu aðstöðu sem byggð hefur verið fyrir móttöku hennar, ásamt því að kynna sér aðra uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu.

Fróðlegur dagur
Dagurinn hófst með því að fylgst var með þegar Norræna lagðist að bryggju við hina nýju og glæsilegu hafnaraðstöðu sem gerð var sérstaklega fyrir skipið. Þá var Norræna og skoðuð í fylgd Jónasar Hallgrímssonar , framkvæmdastjóra Austfars og yfirmanna skipsins. Með í för voru einnig Tryggvi Harðarson bæjarstjóri og ferðaþjónustuaðailar á svæðinu. Að skoðunarferð lokinni var fundað með heimamönnum um borð í skipinu og síðan farið í kynnisferð um bæinn þar sem menn fræddust um þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað að undanförnu á sviði ferðaþjónustu, m.a. gistiaðstöðu, söfn o.fl. "Þetta var afar fróðlegur dagur og gaman að sjá og kynnast því mikla uppbyggingarstarfi sem þarna hefur verið unnið. Það kom fram hjá heimamönnum að þeir merkja þegar greinilegan árangur af því," segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.