Fara í efni

Ferðamálaráð á ferð í Vestmannaeyjum

Á undanförnum árum hefur Ferðamálaráð komið saman til a.m.k. eins fundar utan höfuðborgarsvæðisins. Í leiðinni eru haldnir fundir með heimafólki um það sem efst er á baugi og jafnframt er starfsemi Ferðamálaráðs kynnt fyrir ferðaþjónustuaðilum og sveitastjórnum. 

Síðastliðinn mánudag. var farið til Vestmannaeyja og fundað þar. Að venju vantaði ekkert upp á gestrisni heimamanna og stjanað var við gesti frá morgni til kvölds. Boðið var uppá ljúffengan hádegisverð á Café María, skoðunarferð um eyjuna þar sem gestir fengu meðal annars að sýna listir sýnar í sprangi og sýndu góð tilþrif í sveiflum og hringsnúningum. Að því loknu var ekið að Pompei Norðursins og skrifað undir samning um styrk frá Ferðamálaráði til verkefnisins, eins og fram hefur komið í annarri frétt hér á vefnum.

Að lokinni undirskrift og góðum viðurgerningi var haldið áfram skoðunarferð. Farið var út í Stórhöfða og skoðuð ný aðstaða til fuglaskoðunar. Þar hefur verið reistur pallur sem kostaður var m.a. af Ferðamálaráði. Seinnipart dags var haldinn fundur með ferðaþjónustuaðilum þar sem formaður Ferðamálaráðs, Einar K. Guðfinnsson, opnaði fundinn og kynnti starf ráðsins. Magnús Oddsson ferðamálastjóri kynnti stafsemi skrifstofa ráðsins og hlutverk Ferðamálaráðs. Í lokin voru almennar umæður og fyrirspurnir. Í lok dags var farið í stutta siglingu með Viking tours og kvöldverður snæddur á veitingastaðnum Lanterna.


Ferðamálaráðsfólk á fuglaskoðunarpalli á Stórhöfða en hann var byggður fyrir fé sem kom m.a. frá Ferðamálaráði. Mynd: Ferðamálaráð/EBG