Fara í efni

Ferðamál rædd á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins

Seljalandsfoss
Seljalandsfoss

Málefni vestnorrænna ferðamála og ferðaþjónustu, auk samstarfs vestnorrænu landanna í ferðamálum, verða til umræðu á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins. Hún verður haldin í Maniitsoq á Grænlandi í dagana 6. til 9. júní. Tilgangur ráðstefnunnar er að beina athygli að ferðamálum og ferðaþjónustu og samstarfi Færeyja, Grænlands og Íslands á þessu sviði.

Fram kemur í tilkynningu, að ætlunin sé að beina sérstaklega sjónum að því hvernig samstarfi landanna og samfélaganna verði best háttað til þess ná auknum árangri í að vekja athygli umheimsins á vestnorrænum áfangastöðum og ferðaþjónustu. Einnig verður rætt um það við hverju megi búast að ferðamennr framtíðarinnar sækist eftir og hvaða sérstöðu vestnorrænu ríkin geti markað í geiranum. Jafnframt verður rætt um flugsamgöngur milli landanna, þýðingu ferðamennsku fyrir Vesturnorðurlönd, auk þess sem menn munu velta fyrir möguleikunum á samræmdri markaðssetningu landanna þriggja.

Meðal þeirra sem halda erindi á ráðstefnunni er Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, Árni Gunnarsson frá Flugfélagi Íslands, ferðamálaráðherrar Grænlands og Færeyja og fleiri.