Fara í efni

Ferðafélag Íslands í Vakann

Ferðafélag Íslands í Vakann

 

Ferðafélag Íslands hefur nú lokið innleiðingu gæðaviðmiða og er orðin þátttakandi í Vakanum! Til hamingju!

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að það sé mikilvægur áfangi að félagið uppfylli gæðaviðmið Vakans. ,,Vakinn er frábært tæki til að hjálpa okkur til að auka gæðin í starfi félagsins. Þetta hefur verið bæði lærdómsríkt og ánægjulegt ferli að aðlaga það sem var fyrir hendi í 90 ára starfi félagsins að Vakanum. Í fyrstu árbók félagsins 1928 voru forystumenn félagsins þegar farnir að leggja línurnar um virðingu fyrir náttúrunni, góða umgengni ferðamanna, búnað, öryggismál, fyrstu hjálp ofl. þannig að má segja þessar áherslur allt frá stofnun félagsins hafi verið hluti af okkar menningu í félaginu,“ segir Páll.

Fagnar 90 ára afmæli 

Ferðafélag Íslands fagnar á þessu ári 90 ára afmæli og hefur starfsemi ársins borið þess merki, með fjölbreyttri göngudagskrá, viðburðum og útgáfu. Á þeim 90 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins hafa verið farnar meira en 4.000 ferðir með yfir 250.000 þátttakendum, byggðir 40 fjallaskálar, reistar yfir 60 göngubrýr, lagðir tugir gönguleiða og gefnar út 90 árbækur. Félagsmenn nú eru um 8.000 en stofnfélagarnir fyrir réttum 90 árum voru 63 talsins. Í fararstjórahópi félagsins eru félagsmenn úr öllum áttum, m.a. úr röðum fræðimanna innan háskólasamfélagsins, heimamanna sem gjörþekkja hvern stein á sínu svæði og úr hópi áhugamanna sem hafa aflað sér mikillar reynslu og þekkingar. Ferðafélagið er áhugamannafélag og hefur óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf félagsmanna um áratugaskeið gert starfsemi þess mögulega.