Fara í efni

Farfuglaheimilin í Reykjavík hljóta umhverfisverðlaun Ferðamálstofu 2010

Umhverfisverðlaun 2010
Umhverfisverðlaun 2010

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru veitt í 16. sinn í dag og koma þau að þessu sinni í hlut farfuglaheimilanna í Reykjavík fyrir markvissa umhverfisstefnu og sjálfbæran rekstur. Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála, afhendi verðlaunin við athöfn á Grand Hótel Reykjavík.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt frá árinu 1995 því fyrirtæki sem þykir hafa staðið sig best í umhverfismálum það árið innan ferðaþjónustunnar og hreppa farfuglaheimilin í Reykjavík; í Laugardal og á Vesturgötu 17, verðlaunin að þessu sinni.

Umhverfisvottaðir gististaðir
Fram kemur m.a. í rökum dómnefndar að farfuglaheimilin í Reykjavík séu einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu og líklega á landinu öllu ásamt Hótel Hellnum. Það vó einnig þungt við ákvörðun dómnefndarinnar að bæði farfuglaheimilin eru með Svaninn, opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Slík vottun gerir strangar kröfur til þeirra sem hana hljóta og eru farfuglaheimilin í Reykjavík einu gististaðirnir hér á landi sem fengið hafa Svansvottunina.

Til eftirbreytni
Þá ganga farfuglaheimilin um margt lengra en kröfur eru gerðar um, s.s. í upplýsingagjöf til gesta, og áhugavert þykir að sjá hversu hlutlæg markmiðssetning og eftirfylgni heimilanna er. Þannig sé tryggt að boðað verklag verði ekki orðin tóm. Einnig er til eftirbreytni að mati dómnefndar hversu vel farfuglaheimilin vekja athygli á menningarviðburðum sem eru í gangi á hverjum tíma og taki jafnframt kröftuglega þátt í félagslífinu í sínu nærumhverfi.

Fram kom í ávarpi ferðamálaráðherra við athöfnina í dag að farfuglaheimilin í Reykjavík væru vel að verðlaununum komin. Glöggt mætti sjá að umhverfisvitund væri ekki ný af nálinni hjá þeim því Farfuglar hefðu hlotið umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2003. Aðrir sem fengu tilnefningar til verðlaunanna að þessu sinni voru:

Bílaleiga Akureyrar
Djúpavogshreppur
Farfuglaheimilin í Reykjavík
Ferðir ehf. (Arinbjörn Jóhannsson Erlebnistouren)
Heilsuþorpið á Flúðum
Hótel Fljótshlíð
Reykholtsstaður

Um umhverfisverðlaun Ferðamálastofu
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.


Frá afhendingu verðlaunanna. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Stefán Haraldsson, stjórnarformaður Farfugla; Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála; Ásta Kristín Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri hjá Farfuglum og Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri Ferðamálastofu.