Fara í efni

Evrópulönd einfaldi reglur um vegabréfsáritun

Evrópska ferðamálaráðið – ETC kallar eftir að Evrópulönd geri endurbætur á fyrirkomulagi vegabréfsáritana ferðafólks utan Evrópu og að framkvæmdin verði einfölduð. Telur ETC að slíkt myndi skila ferðaþjónustu í álfunni umtalsverðum ávinningi og fjölgun starfa.

ETC áætlar að um 56% þeirra sem ferðast til Evrópu frá löndum utan álfunnar þurfi í dag vefbréfsáritun og að reglur þar að lútandi séu að mati Alþjóða ferðamálaráðsins UNWTO með þeim ströngustu sem þekkjast. Evrópa sé ekki að fá sömu hlutdeild í auknum ferðalögum fólks og önnur svæði, sem sé alvarleg þróun til lengri tíma litið. Mat ETC er að með einfaldara regluverki mætti fjölga ferðafólki frá fjærmörkuðum en slíkir ferðamenn dvelja gjarnan lengur og eru í þeim skilningi verðmætari fyrir greinina. Telur ETC að verði gripið strax til aðgerða gæti ávinningur ferðaþjónustunnar numið allt að 114 milljörðum evra fram til ársins 2020 og störfum fjölgað um allt að 615 þúsund.

Ferðamálastofa hefur í áratugi verið aðili að Ferðamálaráði Evrópu fyrir Íslands hönd. ETC var stofnað árið 1948 og innan samtakanna eru nú 33 ferðamálaráð jafnmargra þjóða. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri var kjörin einn af þremur varaforsetum ETC fyrr á árinu.

Fréttatilkynning ETC í heild