Fara í efni

Evrópubúar horfa til vorsins þegar kemur að ferðalögum

Forsíða skýrslunnar
Forsíða skýrslunnar

Niðurstöður úr nýlegri könnun um ferðaáform Evrópubúa¹ næsta hálfa árið voru birtar á vefsíðu Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) í gær. Þetta er í fjórða skiptið sem ráðið lætur framkvæma könnunina en hún hefur verið lögð fyrir helstu ferðamannaþjóðir Evrópu² mánaðarlega frá því í ágúst síðastliðnum.

Niðurstöður sýna meðal annars að:

  • Evrópubúar eru nú jákvæðari fyrir ferðalögum en í síðustu könnun sem má rekja til jákvæðra frétta af bóluefnum gegn Covid-19. Um helmingur (52%) Evrópubúa ætlar að ferðast næstu sex mánuðina (des-júní) innanlands eða innan Evrópu, annað hvort í persónulegum tilgangi eða vinnutilgangi. Um er að ræða 5% aukningu á ferðavilja frá síðustu mælingu. Pólverjar (74%), Ítalir (54%) og Frakkar (53%) eru líklegastir að ferðast næstu sex mánuðina.
  • Evrópubúar horfa í ríkum mæli til vorsins þegar kemur að ferðalögum en tæplega þriðjungur hefur í hyggju að ferðast á tímabilinu apríl til júní. Margir eru hins vegar óákveðnir um hvenær þeir ætli að ferðast næst (36%). Fáir (12%) ætla að ferðast innan þriggja mánaða eða til loka febrúar.
  • 40% hafa nú áform um að ferðast til annarra landa Evrópu, nokkru fleiri en í síðustu mælingu. Ríflega þriðjungur (36%) hefur áhuga á að ferðast innanlands sem gerir sjö prósentustiga fækkun frá síðustu mælingu.
  • Traust á flugsamgöngum er að aukast.  52% Evrópubúa lýsa því nú yfir að þeir séu tilbúnir að ferðast með flugi en þetta hlutfall var 49% þegar fyrsta mæling var gerð. Á sama tíma telur lægra hlutfall (17%) flug skapa áhættu fyrir heilsu en þegar könnunin fór fyrst af stað (20%). Spánverjar (67%), Bretar (63%), Ítalir (63%) og Frakkar (61%) eru þær þjóðir sem eru líklegastar til að ferðast með flugi næstu sex mánuðina.
  • Áhyggjuefni Evrópubúa eru mörg þegar kemur að ferðalögum til annarra Evrópulanda en þau snúast núna að mestu um hugsanlega sóttkví (15%), það að verða veikur á áfangastað (14%) og fjölgun Covid-19 tilfella á áfangastaðnum (14%). Auk þess hafa þeir áhyggjur af því að verða veikir á ferðalaginu (10%), ferðatakmörkunum (9%), takmörkunum sem gilda um opnunartíma á áfangastað (8%), reglum um afbókanir (7%) og öryggisatriði þegar kemur að flugi og gistingu (6%).

Óvissa fer minnkandi

Óvissan í kringum ferðalög fer minnkandi skv. niðurstöðum kannana ETC og eins líklegt að endurreisn ferðaþjónustunnar sé innan seilingar. Skýrsluhöfundar beina því til áfangastaða að þróa strangar heilsu- og öryggisreglur til að vinna sér inn frekara traust ferðamanna þar sem heilsa þeirra er sett á oddinn og ætti að fella þessar reglur inn í allt markaðsstarf. Fyrirtæki ættu enn fremur að nýta sér þann áhuga sem Evrópubúar hafa sýnt ferðalögum á vormánuðum fyrir sölu vor- og sumarferða.

¹Könnunin var framkvæmd dagana 20. nóvember til 3. desember 2020 og kemur í framhaldi af könnunum framkvæmdar; a) 27. ágúst - 15. september, b) 21. september - 9. október og c) 19. október - 6. nóvember.
Könnunin er liður í vöktun á því hvaða áhrif COVID-19 er að hafa á ferðaáætlanir og ferðalöngun Evrópubúa, hvers konar ferðalög Evrópubúar vilja fara, til hvaða áfangastaða, hvenær næstu frí verða tekin og hvort þeir hafi áhyggjur af því að ferðast. Auk þess er fylgst með hvaða miðlar eru nýttir við skipulagningu ferðar,  hvernig menn ætla að bóka ferð 
²Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki.