Fara í efni

Evrópubúar gera sér vonir um að geta ferðast fyrri hluta sumars

Ríflega helmingur (54%) Evrópubúa hefur áform um ferðalög næstu sex mánuðina eða fyrir júlílok samkvæmt nýjustu könnun¹ Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) sem kynnt var á vefsíðu ráðsins í gær. Könnunin hefur verið gerð á mánaðarfresti frá því í ágúst síðastliðnum meðal íbúa helstu ferðamannaþjóða Evrópu².

Niðurstöðurnar sýna jafnframt:

  • að um einn af hverjum þremur (31%) Evrópubúum telur líklegast að farið verði í næsta ferðalag fyrir apríllok og um einn af hverjum þremur (34,2%) að það verði farið á tímabilinu maí til júlí.
  • að um tveir af hverjum fimm (41%) Evrópubúum hafa áform um að ferðast til annars Evrópulands næstu sex mánuðina en svo hátt hefur hlutfallið ekki verið frá því könnunin var fyrst gerð (ágúst-sept.2020).
  • að ríflega þriðjungur (35,4%) Evrópubúa ætlar að ferðast innanlands næstu sex mánuðina.
  • að ríflega helmingur (54%) Evrópubúa segist viljugur að ferðast með flugi sem er hæsta hlutfall sem mælst hefur frá því könnunin var lögð fyrst fyrir. Rétt innan við fimmtungur (16%) lítur á flugið sem ógn við heilsu sína en það hlutfall hefur lækkað um fimmtung (20%) frá fyrstu mælingu.
  • að þegar kemur að ákvarðanatöku Evrópubúa um að ferðast innan Evrópu skiptir dreifing bóluefnis máli (11%), það hversu vel áfangastaðir hafa náð utan um faraldurinn (10,5%), Covid-19 prófanir ( 9,5%) sem og sveigjanleiki ef til afpöntunar kemur (9,5%) og heilsu og öryggisreglur á áfangastað (8,7%).
  • að hjá sjö af hverjum tíu Evrópubúum með ferðaáform til skemmri tíma eru strangar heilsu og öryggisreglur á áfangastað lykillinn að því að fólki líði vel og upplifi sig öruggt á áfangastað.
  • að Evrópubúar sem eru líklegastir að ferðast hafa mestar áhyggjur af hugsanlegri sóttkví (15,7%), fjölgun COVID-19 tifella á áfangastað (14,1%), það að verða veikur á áfangastað (12,7%) og hugsanlegum ferðatakmörkunum til og frá heimalandinu (10,5%) og hafa niðurstöður ekki breyst frá fyrri könnun.

Skýrsluhöfundar beina því nú til áfangastaða að vakta þurfi dreifingu bóluefnis á upprunamörkuðum og ná til þeirra markhópa sem hafa fengið bóluefni (t.a.m. eldri aldurshópa). Benda þeir á að aukin tiltrú á flugi ætti að hvetja ferðamálayfirvöld til aukinnar markaðssetningar á nærliggjandi mörkuðum og löndum sem eru háð flugi sem samgöngumáta. Þar sem Evrópubúar hafa mestar áhyggjur af heilsu sinni á ferðalögum er mikilvægt að samhæft hvatningarátak sé keyrt af ferðamálastofum og markaðsstofum með aðkomu allra hagsmunaaðila; fyrirtækja í gisti- og veitingaþjónustu, afþreyingarferðaþjónustu og samgönguþjónustu.  

 

 ¹Könnunin var gerð dagana 18. desember 2020 til 7. janúar 2021 og kemur í framhaldi af sambærilegum könnunum gerðar; a) 27. ágúst - 15. september 2020, b) 21. september - 9. október 2020, c) 19. október - 6. nóvember 2020, d) 20. nóvember til 3. desember 2020.

Könnunin er liður í vöktun á því hvaða áhrif COVID-19 er að hafa á ferðaáætlanir og ferðalöngun Evrópubúa, hvers konar ferðalög Evrópubúar vilja fara, til hvaða áfangastaða, hvenær næstu frí verða tekin og hvort þeir óttist að ferðast.

²Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki.