Fara í efni

ETC auglýsir eftir styrkumsóknum fyrir mastersverkefni um þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu

ETC banner
Ferðamálaráð Evrópu (ETC), í samvinnu við Foundation for European Sustainable Tourism (FEST), hefur auglýst eftir umsóknum um námsstyrk til fjármögnunar rannsóknarverkefnis á meistarastigi. Verkefnið snýr að þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu í Evrópu.

ETC þróar og starfar að ýmsum verkefnum sem varða framgang ferðaþjónustunnar í Evrópu, ekki síst með virkri tengslamyndun og þátttöku í umræðum um þróun atvinnugreinarinnar. Lykilþættir í stefnu ETC eru hvernig örva má samkeppnishæfni og stuðla að sjálfbærum vexti evrópskrar ferðaþjónustu og hafa samtökin einmitt nýlega skilgreint sjálfbærni innan ferðaþjónustu í álfunni sem eitt af sínum helstu áherslusviðum. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri ber einmitt ábyrgð á því sviði, sem er einn af þremur varaforsetum ETC.

Í því skyni að skapa grunn að áherslum ETC á sviði sjálfbærni á næstu árum, var ákveðið að hrinda af stað rannsóknarverkefni sem miðar að því að kortleggja og meta stöðu sjálfbærnisjónarmiða innan hins formlega umhverfis ferðaþjónustu í álfunni. Markmiðið er að skilgreina viðmiðunarreglur sem gætu orðið gagnlegar til að efla hlut slíkra áherslna innan Evrópu.

Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið sem rannsóknaverkefni ( 30-60 ECTS einingar) sem liður í meistaragráðu (M.A., M.Sc., MBA/MPA). Verkefnið hentar einkum nemendum sem stefna á útskrift á þessu ári en nemendur sem áforma útskrift á árinu 2017 koma einnig til greina. Frestur til að sækja um er til 11. mars næstkomandi. Verkefnið skal unnið á ensku.

Nánari upplýsingar eru í meðfylgjandi pdf-skjali og á vef ETC.