Fara í efni

Erna Hauksdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri SAF

Ólöf Ýrr og Elías færðu Ernu þakklætisvott frá Ferðamálastofu.
Ólöf Ýrr og Elías færðu Ernu þakklætisvott frá Ferðamálastofu.

Kveðjuhóf var haldið til heiðurs Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, síðastliðinn fimmtudag á Hilton Reykjavík Nordica en Erna hefur látið af störfum hjá samtökunum eftir 15 ára farsælt og viðburðaríkt starf.

Áður en Erna tók við starfi framkvædastjóra samtakanna starfaði hún sem framkvæmdastjóri Samtaka veitinga- og gistihúsa frá árinu 1985.

Fjöldi félagsmanna og fyrrverandi og núverandi samstarfsfólk úr greininni heiðraði Ernu með nærveru sinni. Árni Gunnarsson, formaður SAF, þakkaði Ernu óeigingjarnt og öflugt starf í þágu ferðaþjónustunnar í gegnum tíðina. Þá fluttu Steinn Logi Björnsson, fyrsti formaður SAF og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri ávarp á þessum tímamótum. Erna þakkaði gestum fyrir samstarf á liðnum árum og rakti ýmis mál sem samtökin hafa barist fyrir á liðnum árum og minntist viðburðaríkra atburða á starfsferlinum.

Starfsfólk Ferðamálastofu vill á þessum tímamótum þakka Ernu gott og farsælt samstarf á liðnum árum og óskar henni velfarnaðar. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Elías Bj. Gíslason fostöðumaður færðu Ernu þakklætisvott frá Ferðamálastofu, platta sem mótaður er sem Ísland og getur nýst við ýmis tilefni.