Fara í efni

Erlendir ferðamenn skila meiru en nokkru sinni

Hvalur
Hvalur

Seðlabankinn hefur nýlega birt tölur um gjaldeyristekjur af ferðamönnum fyrir annan ársfjórðung þessa árs og er þar um verulega aukningu að ræða frá fyrra ári. Sérstaklega hafa tölur vegna neyslu innanlands hækkað milli ára eða úr tæpum 11 í 14,4 milljarða eða um 31%. Fargjaldatekjur hafa hækkað minna eða úr 6,4 í rúma 6,6 milljarða eða sem nemur 4,2%, en inn í þessum tölum séu einungis flutningstölur frá flugfélögum sem skráð séu hér á landi. Þess má geta að á þessum sama tíma, eða frá 1. janúar og til 1. júlí, fjölgaði erlendum ferðamönnum sem fara um Leifsstöð um rúm 19%.

 5,6% hækkun á hvern gest
Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að þessar niðurstöður séu afar jákvæðar enda sjái menn það þegar rýnt sé betur í þær að neysla á hvern ferðamann hækki úr 76.599 í 80.925 krónur eða um 5,6%. Þá er búið að núvirða tölurnar frá árinu áður. Þegar farið sé enn aftar, eða til ársins 2000, þá komi í ljós að neysla hvers gests hafi hækkað um 20,1% að núvirði eða úr 67.359 í 80.925 krónur.

 Magnús heldur áfram og segir að þessi hækkun sé í raun enn hærri því ef menn beri saman gengi dollars, sem sé viðmiðunar gjaldmiðill Seðlabankans, þá hafi dollarinn verið skráður 13,5% lægri að meðaltali fyrstu sexmánuði þessa árs en fyrir ári og 15,6% lægri en árið 2000. Þannig að þeir gestir sem sótt hafa okkur heim á fyrri helmingi þessa árs eru þeir verðmætustu sem við höfum séð lengi og það þótt virðisaukaskattur hafið lækkað ýmissi vöru og þjónustu í mars síðastliðinn.