Fara í efni

Enn nokkuð í að mál skýrst vegna Gamanferða

Enn eru nokkrar vikur í að vænta megi niðurstöðu í innsendar kröfur vegna rekstrarstöðvunar Gaman ehf. (Gamanferða). Reynt er að hraða ferlinu eins og frekast er kostur en á meðan er fólk beðið að sýna biðlund.

Vinna Ferðamálastofu í kjölfar rekstrarstöðvunar Gamanferða miðaði að því að gera fólki kleift að nýta eins og frekast var kostur þá þjónustu sem það hafði þegar bókað og greitt fyrir eða greitt inn á. Þannig var fjölmörgum tilfellum hægt að nýta hluta pakkaferðar, t.d. tónleikamiða, hótelgistinu eða flug.

Eftir standa ferðir eða hluti af ferðum sem fólk hafði greitt fyrir en ekki var hægt að fara og í þeim tilfellum á fólk rétt á endurgreiðslu úr tryggingarfé ferðaskrifstofunnar.

Líkt og fram hefur komið bárust alls 1.038 kröfur og skoða þarf hvert og eitt mál sérstaklega. Allir sem sent hafa inn kröfur munu frá formlega tilkynningu um niðurstöðu málsins. Sem fyrr segir verður reynt að hraða ferlinu eins og hægt er en þó má í fyrsta lagi búast við að mál fari að skýrast með haustinu.