Fara í efni

Samstarf leiði til skilvirkari þjónustu

Síðastliðinn fimmtudag undirrituðu Ferðamálastofa, Íslandsstofa og Nýsköpunarmiðstöð Íslands samkomulag um samstarfsverkefni sem ætlað er að leiða til betri og skilvirkari þjónustu þessara aðila til stuðnings íslenskrar ferðaþjónustu.

Tilgangur verkefnins

  • Að auka samstarf stuðningskerfis ferðaþjónustu á sviði vöruþróunar og markaðssetningar
  • Að greina hvers konar stuðning vantar og hvaða leiðir megi fara til að auka vitund um mikilvægi vandaðrar vöruþróunar og markaðssóknar fyrirtækja í ferðaþjónustu
  • Að leita leiða til að tengja betur saman vöruþróun og markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu
  • Að greina með hvaða hætti megi stuðla að markvissari eigin markaðssetningu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja

Margvíslegt efni liggur fyrir

Á undanförnum árum hafa margir lagt hönd á plóg við að byggja upp gott og aðgengilegt efni sem nýst getur forsvarsmönnum fyrirtækja í ferðaþjónustu við vöruþróun og markaðssetningu.

  • Þannig hefur Ferðamálastofa m.a. annast öflun grunnganga með gerð kannana og talningu ferðamanna, auk þess að leiða uppbyggingu VAKANS.
  • Hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur m.a. verið unnið að stuðningi við samstarfsverkefni og klasa haldið utan um úthlutun úr þróunarsjóði Landabankans og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og í samstarfi við fleiri aðila gefið út handbókina Einstök íslensk upplifun sem ætluð er sem stuðningur fyrir þá sem vilja tileinka sér aðferðir upplifunarferðamennsku.
  • Íslandsstofa annast samræmt markaðs- og kynningarstarf fyrir íslenska ferðaþjónustu og hefur frá árinu 2010 séð um rekstur Inspired by Iceland samstarfsverkefnisins. Íslandsstofa hefur nýlega opnað verkfærakistu ferðaþjónustunnar þar sem finna má gagnlegar upplýsingar varðandi kynningu og markaðssetningu Íslands.

Hvað verður gert

Verkefnið felur í sér að á næsta ári er stefnt á að halda fundi með fyrirtækjum og fulltrúum stoðkerfis. Á þeim verður m.a. lagt mat á þau gögn sem fyrir liggja og aðgengileika þeirra. Niðurstöðurnar á svo að nýta til að móta öflugt stuðningsverkefni til næstu þriggja ára, þ.e. 2015-2018.

Undirskrift samnings

Það voru þau Berglind Hallgrímsdóttir frá Nýsköpunarmiðstöð, Inga Hlín Pálsdóttir frá Íslandsstofu og Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu sem skrifuðu undir samninginn.