Fara í efni

Endurskoðun ferðamálaáætlunar - Óskað eftir athugasemdum

Gullfoss
Gullfoss

Um þessar mundir stendur yfir endurskoðun á ferðamálaáætlun 2006-2015. Sami stýrihópur og vann áætlunina upphaflega vinnur að endurskoðuninni en í honum sitja Magnús Oddsson ferðamálastjóri, formaður hópsins; Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í samgönguráðuneytinu. Sunna Þórðardóttir er starfsmaður verkefnisins.

Samkvæmt skipunarbréfi ráðherra skal opnuð gátt á heimasíðum ráðuneytis, Ferðamálastofu og SAF, þar sem hagsmunaaðilar geta sett inn athugasemdir. Stýrihópur hefur tekið þá ákvörðun að óska eftir viðbrögðum við afmörkuðum þáttum verkefnisins eftir því sem fram vindur.

Stýrihópurinn hefur þá skoðun að í endurskoðaðri áætlun skulu vera sömu meginmarkmið og í fyrirliggjandi áætlun. Þau eru;

  • Náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.
  • Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.
  • Álag vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna.
  • Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.

Í ferðamálaáætlun 2006-2015 voru níu flokkar sem lutu að megin markmiðum áætlunarinnar. Þeir eru;

  • Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar.
  • Kynningarmál.
  • Nýsköpun og þróun.
  • Menntun.
  • Rannsóknir.
  • Grunngerð.
  • Fjölþjóðasamstarf.
  • Gæða- og öryggismál.
  • Umhverfismál.

Hr með er óskað eftir ábendingum og athugasemdum varðandi markmiðin, s.s. hvort hagsmunaaðilum þyki þörf á að breyta þeim. Einnig er óskað eftir viðbrögðum varðandi málaflokkana níu s.s. hvort þeir eigi að standa, hvort þörf sé á nýjum eða hvort skuli sameina þá og/eða fækka þeim. Tekið er á móti ábendingum varðandi þetta til sunnudagsins 10. júní. Allar ábendingar eru vel þegnar og munu verða teknar til umfjöllunar og skoðunar hjá stýrihóp.

Ábendingar sendist til: sunna@icetourist.is