Fara í efni

Elías Bj. Gíslason settur ferðamálastjóri

Elías Bj. GíslasonRáðherra ferðamála hefur falið Elíasi Bj. Gíslasyni að gegna starfi ferðamálastjóra þar til nýr ferðamálastjóri hefur verið skipaður. Embættið var auglýst laust til umsóknar í síðari hluta október og bárust 14 umsóknir.

Hæfnisnefnd tók til starfa í byrjun desember og hefur skilað tillögum til ráðherra sem á næstu dögum mun boða þá hæfustu til viðtals. Elías hefur starfað hjá Ferðamálastofu frá árinu 1998 og er forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs. Mun hann gegna því starfi samhliða. Elías hefur tvívegis áður verið settur ferðamálastjóri, árið 2014 og 2017.

Hann er með MBA gráðu frá Florida Institute of Technology og BSc gráðu í viðskiptafræði með áherslu á hótelstjórn frá Webber College í Bandaríkjunum. Þá er Elías einnig útskrifaður sem matreiðslumaður frá Hótel og veitingaskóla Íslands. Hann á að baki fjölþætta reynslu innan ferðaþjónustunnar, m.a. sem hótelstjóri á Hótel KEA og Edduhótelunum og sem atvinnu- og ferðamálafulltrúi í Vestmannaeyjum. Á árum áður starfaði Elías einnig hér heima og erlendis sem matreiðslumaður.