Fara í efni

Eiga náttúruvernd og ferðaþjónusta samleið?

Brent MitchellRannsóknamiðstöð ferðamála, Ferðamálastofa, Markaðsstofa Norðurlands og Akureyrarstofa bjóða til málstofu mánudaginn 2. nóvember kl. 14-15 í anddyri Borga, rannsókna- og nýsköpunarhúsinu, við Háskólann á Akureyri. Þar heldur erindi Brent Mitchell, bandarískur sérfræðingur um þjóðgarða, friðlýst svæði og leiðir til að efla starf almennings og félagasamtaka í náttúruvernd.

Spurninar sem vakna

Náttúra Íslands er hornsteinn vaxandi ferðaþjónustu og meðal spurninga sem velt verður upp eru:
Geta markmið verndar og nýtingar farið saman?

  • Hvernig er unnt að efla starf stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings í verndun þessarar auðlindar?
  • Á að markaðsetja Ísland á grundvelli vistvænnar ferðamennsku?
  • Ætti að friðlýsa stærri svæði og stofna fleiri þjóðgarða?
  • Hvernig er best að vinna að samstöðu hagsmunaaðila við slíka vinnu og er hægt að auka þátttöku almennings í ferlinu?

Víðtæk reynsla

Brent hefur komið að þróun og innleiðingu verkferla um vernd landslagsheilda og uppbyggingu náttúruverndar víða um heim. Ljóst er að hann hefur af mörgu að miðla sem nýst getur í umræðu og stefnumörkun um þessi mál hér á landi.

Ferill Brents á þessu sviði hófst þegar hann vann að stofnun fyrstu þjóðgarðanna á Haiti og víðar á þeim slóðum. Hann vinnur nú hjá Quebec Labrador Foundation við það m.a. að auðvelda kaup á landi til sérstakrar verndunar í austanverðu Kanada og á Nýja Englandi og þróun vinnubragða í verndun náttúrulegra auðlinda og menningarlegrar arfleifðar á grunni „ráðsmennsku“ (land stewardship). Hann er einn af stofnendum U.S. National Park Service Stewardship Institute („áhugastofnunar“ sem styður við þjóðgarðana með margvíslegum hætti). Hann er leiðandi meðhöfundur nýrrar samantektar um vernd landslagsheilda í BNA, fráfarandi forseti samtaka sérfræðinga um verndun svæða í BNA og er virkur í alþjóðlegum þjóðgarðamálum.

Landgræðslan, Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvallaþjóðgarður og Umhverfisstofnun/ Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull standa að komu Brents Mitchell hingað til lands.

Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku og allir eru hjartanlega velkomnir.