Fara í efni

Dreamliner mun opna nýja möguleika

Dreamliner1
Dreamliner1

FL Group, fyrir hönd Icelandair Group, hefur samið um kaup á tveimur Boeing 787 Dreamliner farþegaþotum fyrir Icelandair, til viðbótar þeim tveimur þotum af þessari gerð sem áður höfðu verið pantaðar.

Fyrri tvær vélarnar verða afhentar árið 2010 og þær síðari árið 2012 þannig að nokkuð mun líða þar til Íslendingar geta farið að njóta þessara glæsilegu farkosta. Fyrstu Dreamliner-vélarnar verða teknar í notkun að u.þ.b. tveimur árum liðnum. Þær eru af nýrri kynslóð farþegavéla og bjóða farþegum áður óþekkt þægindi, með auknu rými, stærri gluggum og betri innréttingum. Til viðbótar eiga þær að vera sérlega hagkvæmar í rekstri enda áhuginn hjá flugrekendum meiri en Boeing hefur áður kynnst við kynningu á nýrri vél.

Í fréttatilkynningu er haft eftir Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair, að þessar nýju vélar muni opna nýja möguleika fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu. Með þeim verður hægt að fljúga án viðkomu á milli Íslands og hvaða áfangastaðar sem er í heiminum. Verð þessara tveggja viðbótarflugvéla er um 290 milljónir bandaríkjadala þannig að um mikla fjárfestingu er að ræða. Hér að neðan má sjá tvær tölvugerðar myndir af hinni nýju vél.