Demantshringurinn formlega opnaður

Demantshringurinn formlega opnaður
Það var mikil ánægja meðal viðstaddra þegar leiðin var opnuð formlega. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra klipptu á borðann og eru hér með Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.

Demantshringurinn var formlega opnaður við hátíðlega athöfn síðastliðinn sunnudag, þegar þrír ráðherrar klipptu á borða sem var strengdur yfir nýjan Dettifossveg mitt á milli Dettifoss og Ásbyrgis. Ferðamannaleiðin er 250 kílómetra löng og tengir saman Húsavík, Goðafoss, Mývatnssveit, Dettifoss og Ásbyrgi auk fjölda annarra einstakra áfangastaða. Ferðaþjónustufyrirtæki á hringnum eru fjölmörg og bjóða upp á margvíslega möguleika í gistingu, afþreyingu, mat og drykk.

Nafnið Demantshringurinn hefur verið notað um árabil um leiðina og ferðir verið seldar undir því nafni en Markaðsstofa Norðurlands hefur undanfarin misseri unnið að undirbúningi að markvissri markaðssetningu á ferðamannaleiðinni í samstarfi við Húsavíkurstofu og fyrr í vetur var nýtt merki fyrir hana kynnt. Sú vinna var unnin í samhengi við framkvæmdir við Dettifossveg en stefnt er að því að ljúka þar framkvæmdum á næstunni. Því verður hægt að keyra alla leiðina á bundnu slitlagi en í áraraðir hefur norðlensk ferðaþjónusta og fleiri kallað eftir því að vegurinn á milli Dettifoss og Ásbyrgis yrði byggður upp, en gamli vegurinn var seinfær og lokaður stóran hluta ársins.

Vefsíða Demantshringsins


Athugasemdir