Fara í efni

Deildu póstkorti um gestrisni og jákvæð áhrif ferðaþjónustu á gestgjafar.is

Verkefninu Góðir gestgjafar var hleypt af stokkunum á veitingastaðnum Önnu Jónu í Tryggvagötu síðastliðinn föstudag, þar sem þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri opnuðu vefsíðu verkefnisins og birtu sín póstkort á samfélagsmiðlum.

Verkefnið er hvatning til landsmanna um að njóta þess mikilvæga hlutverks að vera gestgjafar og þeirra margvíslegu gæða sem því fylgja. Gestrisni þjóðarinnar er stór þáttur í góðri upplifun ferðamanna á Íslandi og saman erum við hluti af verðmætustu stundum fólks á ferðalagi. Við tökum vel á móti gestum sem sækja okkur heim og njótum á ýmsan hátt verðmæta sem þeir skilja eftir hér á landi. Í stað þess að flytja út fisk eða aðrar hefðbundnar vörur þá flytur ferðaþjónustan út gestrisni þjóðarinnar, sem svo skilar sér margfalt í afar fjölbreyttum ávinningi af góðum gestum okkar.

Við getum þakkað blómlegri ferðamennsku fyrir að við njótum nú fjölbreyttari þjónustu og atvinnutækifæra en áður, ásamt framúrskarandi gestrisni um land allt sem hefur alla tíð verið eitt af aðalsmerkjum Íslendinga. Heimsóknir okkar áhugasömu gesta hafa þannig gert samfélagið fjölbreyttara og skemmtilegra.


Það eru Samtök ferðaþjónustunnar, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Ferðamálastofa, Íslenski ferðaklasinn og áfangastaðastofur landshlutanna sem standa að baki verkefninu.


Vefurinn gestgjafar.is opnaður. Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Póskort Arnars Más Ólafssonar ferðamálastjóra.

 

Á vefnum www.gestgjafar.is býðst fólki og fyrirtækjum að taka þátt í gestgjafaheiti og búa til póstkort til að deila á samfélagsmiðlum með mynd og skilaboðum frá eigin hjarta um jákvæð áhrif ferðaþjónustu á þau sjálf, nærsamfélögin eða samfélagið í heild.

Góðir gestgjafar skapa gæði

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra: „Íslendingar eru góðir gestgjafar og Ísland eftirsóknarvert heim að sækja. Það sýna meðal annars kannanir á upplifun erlendra ferðamanna, en meðmælaskor Íslands sem áfangastaðar er með því hæsta sem um getur. Það er sterk vísbending um þá upplifun og gæði sem áfangastaðurinn stendur fyrir. Við þekkjum það öll á eigin skinni að gott viðmót og þjónustulund skiptir máli hvert sem maður fer. Verkefnið „Góðir gestgjafar“ undirstrikar það á jákvæðan hátt og minnir um leið á þau margvíslegu gæði sem fylgja því að taka á móti þessum góðu gestum. Ferðaþjónustan er máttarstólpi í þjóðarbúinu, stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegurinn og skilaði okkur um 390 milljörðum króna í útgjöldum erlendra ferðamanna á síðasta ári. Það gefur auga leið að fyrir lítið opið hagkerfi skiptir þetta miklu máli. Það er því nauðsynlegt að halda áfram að treysta umgjörð ferðaþjónustunnar til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi.“

Ferðaþjónustan skapar blómlegt líf um land allt

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar: „Það hefur verið frábært að sjá allt það ótrúlega líf sem hefur kviknað um allt land út frá ferðaþjónustunni síðustu ár, til dæmis miklu fjölbreyttari atvinnutækifæri, meiri grundvöllur fyrir rekstri lítilla fjölskyldufyrirtækja, fjöldi frábærra veitingastaða og alls konar þjónusta hefur orðið til sem við heimafólkið nýtum okkur líka. Við upplifum landið okkar líka á annan hátt þegar við sjáum hversu mögnuð áhrif það hefur á gestina, sem hafa kosið að verja dýrmætasta tíma sínum hér hjá okkur, frítímanum.Við viljum að þessi jákvæða upplifun bæði gestanna og okkar gestgjafanna verði enn betri í framtíðinni og erum að vinna með stjórnvöldum að aðgerðaáætlun um sjálfbæra þróun ferðaþjónustu til að tryggja það.“

Fjölbreyttari og skemmtilegri upplifun fyrir okkur öll

Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri: „Þegar við lítum á þessi fjölbreyttu lífsgæði sem virðast næstum hversdagsleg í dag þá kemur á óvart hvað er í raun stutt síðan þau vantaði. Það er orðinn grundvöllur fyrir rekstri verslana allt árið í litlum samfélögum, hér er fjöldi baðlóna á heimsmælikvarða, alls konar þjónusta hefur orðið til sem áður stóð ekki undir sér, kaffihús og veitingastaðir starfa í næstum hverjum bæ á landinu og víða í sveitum, stærri markaður er fyrir vörur bænda og smáframleiðenda og betri grundvöllur fyrir að starfa við íslenska hönnun svo eitthvað sé nefnt. Svo má ekki gleyma því að við Íslendingar erum líka ferðamenn í eigin landi, og öll þessi uppbygging hefur gert þá upplifun fjölbreyttari og skemmtilegri fyrir okkur öll.“

Við erum öll gestgjafar

Gestrisni er svo innmúruð í íslenska menningu að Hávamál hefjast á nærri þúsund ára ráðleggingum um hvað beri að gera þegar gest ber að garði, en þar eru ekki síður ráðleggingar til gesta um hvernig skynsamlegt sé að haga heimsókninni. Öllum gestagangi fylgja auðvitað allskonar áskoranir sem takast þarf á við af ábyrgð svo að upplifun bæði gestanna og okkar gestgjafanna verði að minnsta kosti jafn góð - og helst miklu betri - en í dag.
Við erum öll gestgjafar í okkar einstaka landi. Verið velkomin á www.gestgjafar.is