Fara í efni

Dalvíkurbyggð í stefnumótunarvinnu

Svæðið við Hraunfossa og Barnafoss opnað eftir endurbætur
Svæðið við Hraunfossa og Barnafoss opnað eftir endurbætur

Síðastliðið haust fór af stað stefnumótunarvinna í ferðaþjónustu í Dalvíkurbyggð sem áætlað er að  verði lokið nú í haust. Liður í vinnunni er skýrsla um komur ferðamanna til sveitarfélagsins.

Rannsóknir - og ráðgjöf ferðaþjónustunnar unnu skýrsluna fyrir Dalvíkurbyggð. Niðurstöður byggja annars vegar á símakönnunum sem gerðar voru á meðal Íslendinga og spurningakönnunum sem lagðar voru fyrir erlenda ferðamenn.

Samkvæmt skýrslunni var fjöldi erlendra ferðamanna í Dalvíkurbyggð á síðast ári í kringum 17.000 manns og fjöldi innlendra ferðamanna er áætlaður um 50.000 manns. Stærstur hluti erlendu ferðamannanna kom á tímabilinu júní-september eða um 14.000 manns. Ekki er munur á komu erlendra ferðamanna til Dalvíkur eftir kyni eða aldri. Þegar skoðað er frá hvaða löndum erlendu gestirnir koma má sjá að stærstur hluti þeirra er frá Mið-Evrópu, alls 3.800, Suður-Evrópu, alls 3.700, og Norðurlöndunum, alls 2.700. Um það bil 83% erlendra ferðamanna á Dalvík kemur á eigin vegum en það helst í hendur við það að rúmlega 20% erlendra gesta á Dalvík koma til landsins með Norrænu.

Útfrá niðurstöðum könnunarinnar er áætlað að yfir 50.000 Íslendingar hafi komið til Dalvíkur á síðasta ári í rúmlega 100.000 heimsóknum og benda niðurstöðurnar til þess að ferðamönnum á Dalvík hafi fjölgað umtalsvert. Aldurshópurinn sem mest sækir Dalvík heim er 46-55 ára. Íbúar af Norðurlandi eystra komu hlutfallslega mest til Dalvíkur á síðasta ári, þá fólk af Norðurlandi vestra en íbúar Vestfjarða komu minnst. Skýrsluna er hægt að nálgast í heild sinni á heimasíðu Dalvíkurbyggðar www.dalvik.is

Mynd: Frá Fiskideginum mikla á Dalvík.