Fara í efni

Dagskrá ferðamálaráðstefnu 2003

Myvatn
Myvatn

Dagskrá Ferðamálaráðstefnunnar í Mývatnssveit 16.-17. október næstkomandi er nú komin hér á vefinn og jafnframt hægt að skrá sig á ráðstefnuna. Meginefni og yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er "Markaðssetning Íslands - breyttar áherslur." Ráðstefnan er haldin í félagsheimilinu Skjólbrekku við Skútustaði.

Auglýst eftir samstarfi
Með yfirskrift ráðstefnunnar er verið að vísa til þeirrar nýju leiðar sem farin var á þessu ári við nýtingu þess fjármagns sem stjórnvöld ákváðu að verja til markaðssóknar íslenskrar ferðaþjónustu. Í stuttu máli var ákveðið að nýta 202 milljónir, af þeim 300 sem voru veittar af opinberri hálfu til markaðsstarfs á árinu 2003, til samstarfsverkefna í almennri landkynningu á 4 markaðssvæðum erlendis. Var fjármununum skipt með ákveðnum hætti á hverju markaðssvæði og síðan auglýst eftir samstarfsaðilum. Þannig gafst aðilum kostur á að sækja um samstarf við Ferðamálaráð gegn því að leggja fram a.m.k. jafn háa upphæð og framlag Ferðamálaráðs var til umræddra verkefna.

Framsaga og pallborð
Framsögu um málið mun hafa Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands. Síðan verða pallborðsumræður þar sem þátt taka Hannes Hilmarsson, svæðisstjóri Icelandair; Svanhildur Konráðsdóttir, framkvæmdastjóri Höfuðborgarstofu; Gunnar Rafn Birgisson, framkvæmdastjóri Atlantic; Óli Jón Ólason, hótelstjóri Hótel Reykholt; Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi Hótel 101 og Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.

Hátíðarkvöldverður
Að ráðstefnu lokinni verður móttaka í boði samgönguráðherra og í beinu framahaldi hátíðarkvöldverður og skemmtun á Hótel Gíg. Þar verða m.a. veitt umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs fyrir árið 2003. Föstudaginn 17. október verður samkvæmt venju skoðunarferð um svæðið í boði heimamanna.

Skoða dagskrá

Myndatexti:  Séð yfir Mývatn með Skútustaði í forgrunni.  Myndin er fengin af vef Skútustaðahrepps.