Fara í efni

Visit Iceland best hannaði ferðavefur í heimi

Skjáskot af Visit Iceland vefnum en hann er á slóðinni visiticeland.com
Skjáskot af Visit Iceland vefnum en hann er á slóðinni visiticeland.com

Á síðasta ári tóku Íslandsstofa, Ferðamálastofa og menningar- og viðskiptaráðuneytisins höndum saman um endurgerð Visit Iceland vefis sem alhliða upplýsingagáttar fyrir erlenda ferðamenn .  Hann var nú á dögunum valinn best hannaði ferðavefur í heimi samkvæmt nýjum lista frá Skift sem er leiðandi fréttamiðill og upplýsingaveita um ferðaþjónustu í heiminum.

 Í næstu sætum koma ferðavefir á borð við Visit California, Zürich Tourism, Visit Brazil, NYCGo og Visit Finland.

Í umsögn segir m.a.: „Hið hreina og látlausa útlit norrænnar grafískrar hönnunar virkar vel sem sjónrænt aðdráttarafl, við að senda hnitmiðuð skilaboð með skýrum hætti (eða með húmor) og vekja frekari áhuga með lágmarks fyrirhöfn, sérstaklega í vefsíðuheiminum.“

Þá er vakin sérstök athygli á framsetningu á sjálfbærri ferðaþjónustu: „Aðgengi að grænni ferðamöguleikum á vefsíðum er alltaf plús — Visit Iceland er með heila síðu sem er tileinkuð því að hjálpa ferðamönnum að taka þátt í skuldbindingu Íslands um að varðveita náttúru landsins, þar á meðal lista yfir umhverfisvottuð fyrirtæki, reiknivél fyrir kolefnisfótspor og lista með ábendingum yfir sjálfbær ferðalög á Íslandi.

Uppskera eftir mikla vinnu

Verkefnahópur Íslandsstofu og Ferðamálastofu leiðir endurgerð vefsins og hefur notið liðsinnis stýrihóps sem í eiga sæti fulltrúar frá atvinnugreininni og ýmsum samtökum. Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir útnefninguna gríðarlega góða viðurkenningu fyrir það mikla starf sem hefur átt sér stað undanfarin ár við að efla Visit Iceland vefinn sem alhliða upplýsingagátt fyrir erlenda ferðamenn. "Yfirhalning var gerð á útliti og hönnun, mjög mikið af nýju efni hefur litið dagsins ljós, auk þess sem notendaupplifun hefur verið bætt til muna. Sem dæmi voru gerðar aðgengilegar upplýsingar úr teljurum á helstu áfangastöðum og kolefnisreiknir settur fram þar sem fólk getur reiknað kolefnisspor og bent á leiðir til að kolefnisjafna ferð til Íslands. Við teljum þessi verðlaun sannarlega vera uppskeru þessarar vinnu.“

Hér má lesa nánar um verðlaunin: The 10 Best Designed Tourism Websites in the World 2022 (skift.com)

Vefstofan Júní hefur annast hönnun og forritun vefsins.