Fara í efni

Vegna frétta um að Tango travel hafi hætt starfsemi

Horft út Eyjafjörð.
Horft út Eyjafjörð.

Vegna fréttar um að Tango travel hafi hætt starfsemi sem birtist í fjölmiðlum í dag, vill Ferðamálastofa vekja athygli á eftirfarandi.

 

Ef rekstri er hætt án þess að til komi gjaldþrot

Kjósi ferðaskrifstofa að hætta rekstri, án þess að hún fari fram á gjaldþrotaskipti, þarf ferðaskrifstofa að aflýsa ferðum viðskiptavina sinna og endurgreiða þeim þær. Þannig að á meðan félagið er enn starfandi og hefur ekki verið úrskurðað gjaldþrota eiga farþegarnir að beina kröfum sínum til félagsins, ekki til Ferðatryggingasjóðs.

 

Sama er ef pakkaferð er aflýst vegna þess að ferðaskrifstofa getur ekki staðið við pakkaferðasamning, t.d. vegna gjaldþrots Play, þá er það ferðaskrifstofan sem ber ábyrgð á að endurgreiða ferðina. Því eiga viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar alltaf að snúa sér til ferðaskrifstofunnar með slíkar kröfur.

 

Hvenær kemur til kasta Ferðatryggingasjóðs?

Ferðatryggingasjóður endurgreiðir aðeins greiðslur, sem ferðamenn hafa greitt fyrir pakkaferðir, ef ferðaskrifstofa verður ógjaldfær/gjaldþrota, eða ef ferðaskrifstofuleyfið er fellt niður að frumkvæði Ferðamálastofu vegna vanskila ferðaskrifstofu á greiðslu gjalda í Ferðatryggingasjóð eða ákvörðuð trygging ferðaskrifstofu hefur ekki verið lögð fram.

 

Ef ferðaskrifstofa verður gjaldþrota

Ef ferðaskrifstofa verður gjaldþrota eða leggur fram opinbera staðfestingu um að hún sé ógjaldfær birtir Ferðamálastofa skýrar leiðbeiningar hér á vefnum um hvernig hægt er að sækja um endurgreiðslu í gegnum Ferðatryggingasjóð.

 

Ferðatryggingasjóður endurgreiðir m.ö.o. ekki þegar ferð fellur niður nema ferðaskrifstofan hafi í raun hætt starfsemi vegna gjaldþrots og leyfið fellt niður í kjölfarið. Upplýsingar um annað eru því ekki réttar.

 

Endurgreiðslufrestur er ákvarðaður í lögum

Þá vill Ferðamálastofa benda á að það er rangt, sem fram kom í viðtali við forsvarsmann Tango travel í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, að það hafi verið Ferðamálastofa og ferðamálaráðherra sem hafi veitt ferðaskrifstofunni 14 daga frest til að endurgreiða viðskiptavinum ferðaskrifstofunnar. Hið rétta er að um lögbundinn frest er að ræða skv. lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 og byggir á tilskipun ESB nr. 2015/2302 um sama efni.

 

Neytendur skoði rétt sinn

Einnig eru þeir sem eiga kröfu á hendur Tango travel og hafa greitt ferðir sínar með kreditkorti hvattir til að kanna rétt sinn til endurgreiðslu hjá sínu kortafyrirtæki.

 

Enn fremur má benda á kærunefnd vöru og þjónustu, www.kvth.is. Nánari upplýsingar um rétt til endurgreiðslu vegna aflýsingar pakkaferðar er að finna hjá Neytendastofu.