Fara í efni

Upplifun og viðhorf heimamanna til skemmtiferðaskipa

Niðurstöður úr nýrri könnun Ferðamálastofu um upplifun og viðhorf heimamanna til skemmtiferðaskipa voru kynntar á fundi sem haldinn var í síðustu viku um helstu málefni sem tengjast komum skemmtiferðaskipa. Könnunin* var lögð fyrir íbúa á Akureyri, Ísafirði og í Reykjavík, þar sem stærstu móttökuhafnir skemmtiferðaskipa eru, á tímabilinu október til nóvember.

Könnunin er hluti af stærra rannsóknaverkefni sem er í gangi og snýr að reglubundinni vöktun á viðhorfum Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamanna á landsvísu og í einstaka landshlutum. Rannsóknin miðar að því að móta tímalínu gagna um viðhorf ferðamanna og tekur mið af þeim opinberu markmiðum að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á nærsamfélag og auki lífsgæði. Niðurstaðna úr henni er að vænta á vormánuðum 2024.

Viðhorf til skemmtiferðaskipa - Helstu niðurstöður

  • Flestir svarendur (64-72%) á stöðunum þremur eru á því að hafnaryfirvöld ráði vel við að taka á móti skemmtiferðaskipum.
  • Um þriðjungur (34%) Ísfirðinga telur heimabyggð ekki ráða almennt við að þjónusta farþega skemmtiferðaskipa. Um 72% Reykvíkinga og 68% Akureyringa telja sína heimabyggð hins vegar ráða vel við þjónustuhlutverkið.
  • Tveir af hverjum þremur Akureyringum (65%) og tæplega þrír af hverjum fimm Reykvíkingum og Ísfirðingum (57%) eru á því að farþegar skemmtiferðaskipa eyði almennt litlu í landi. Langflestir Ísfirðingar eða ríflega átta af hverjum tíu (83%) telja skemmtiferðaskipin hins vegar efnahagslega mikilvæg fyrir heimabyggðina. Hið sama telja 63% Akureyringa og 46% Reykvíkinga.
  • Um helmingur (49%) Ísfirðinga telur íbúa í sinni heimabyggð verða fyrir ónæði af komum skemmtiferðaskipa sem er mun hærra hlutfall en mælist meðal Akureyringa (34%) og Reykvíkinga (25%).
  • Mengun frá skemmtiferðaskipum veldur áhyggjum, þá einkum hjá íbúum í Reykjavík og á Akureyri (75-76%).
  • Meirihluti íbúa á stöðunum þremur vill ekki fleiri skemmtiferðaskip í sína heimabyggð
    eða 77% Ísfirðinga, 75% Akureyringa og 66% Reykvíkinga.

*Um könnunina

Könnunin var lögð fyrir íbúa á Akureyri, Ísafirði og í Reykjavík samtímis sem símakönnun á tímabilinu 23. október til 6. nóvember. Tekið var lagskipt úrtak íbúa sem náði til til 758 einstaklinga á Akureyri, 651 á Ísafirði og 754 í Reykjavík. Svarhlutfallið var svipað á Akureyri (49%) og Ísafirði (50%) en örlítið lægra í Reykjavík (43%). Lagðar voru fyrir átta spurningar um viðhorf til skemmtiferðaskipa og farþega í heimabyggð auk spurninga um bakgrunn svarenda. Rannsóknamiðstöð ferðamála hafði umsjón með verkefninu fyrir Ferðamálastofu en Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri sá um framkvæmd könnunarinnar.

Opna könnun